Körfubolti

Svíar sterkari á lokasprettinum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sara Rún skoraði 18 stig og tók fjögur fráköst gegn Svíþjóð.
Sara Rún skoraði 18 stig og tók fjögur fráköst gegn Svíþjóð. vísir/stefán
U-20 ára landslið Íslands tapaði með einu stigi, 70-69, fyrir Svíþjóð á Norðurlandamótinu í Danmörku í dag. Þetta var fyrsti leikur Íslands á mótinu.

Íslenska liðið var sterkari aðilinn framan af leik og leiddi með 11 stigum, 8-19, eftir 1. leikhluta. Ísland hélt áfram þar sem frá var horfið í 2. leikhluta og náði mest 15 stiga forskoti, 14-29, um miðbik hans. Svíar áttu ágætis endasprett í fyrri hálfleik og náðu að minnka muninn í sex stig, 34-40, fyrir lok hálfleiksins.

Sænska liðið hélt áfram að saxa á forystu íslenska liðsins í 3. leikhluta og fyrir lokaleikhlutann var munurinn aðeins eitt stig, 53-54. Fjórði og síðasta leikhlutinn var síðan æsispennandi, þar sem liðin skiptust á forystunni.

Ingunn Embla Kristínardóttir kom Íslandi þremur stigum yfir, 64-67, með þriggja stiga körfu tveimur og hálfri mínútu fyrir leikslok en Svíar jöfnuðu jafnharðan.

Sænska liðið setti svo niður annan þrist einni og hálfri mínútu fyrir leikslok og komst þremur stigum yfir, 70-67. Sara Rún Hinriksdóttir minnkaði muninn í tvö stig, 70-69, en íslenska liðinu tókst ekki að jafna og Svíar fögnuðu sigri.

Sara Rún var stigahæst í íslenska liðinu með 18 stig en Hallveig Jónsdóttir kom næst með 15 stig.

Ísland mætir Danmörku á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×