Handbolti

Kiel fékk skell í Króatíu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Alfreð Gíslason var ósáttur í kvöld.
Alfreð Gíslason var ósáttur í kvöld. vísir/getty
HC Zagreb gerði sér lítið fyrir og vann Þýskalandsmeistara Kiel í fyrstu umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í handbolta í kvöld, 29-22.

Króatísku meistararnir gerðu það sama á síðustu leiktíð, en þá unnu þeir tveggja marka sigur á Kiel einmitt í fyrstu umferð riðlakeppninnar. Kiel jafnaði sig nú á því og komst í undanúrslitin.

Lærisveinar Alfreðs litu ekkert sérstaklega vel út í kvöld, en Zagreb var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 13-11. Sóknarleikurinn var stirrður og vörnin opnari en oft áður.

Hornamaðurinn efnilegi, Rune Dahmke, leikmaður Kiel, var markahæsti maður vallarins með átta mörk úr níu skotum. Zlatko Horvat var markahæstur heimamanna með sex mörk úr sjö skotum, en hann fékk síðar rautt spjald.

Kiel missti auðvitað Aron Pálmarsson til ungverska stórveldisins MVM Veszprém eins og stóð til, en svo stakk Filip Jicha af til Barcelona þegar Evrópumeistarana vantaði mann fyrir Nicola Karabatic. Alfreð Gíslason á því væntanlega slatta af vinnu eftir með þetta lið.

Frábær sigur hjá HC Zagreb, sem gæti reynst Kiel dýrkeyptur, en í riðlinum eru einnig MVM Veszprém, Paris Saint-Germain, Flensburg, Wisla Plock frá Póllandi og Celje Lasko frá Slóveníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×