Handbolti

Löwen með fjögurra stiga forskot á toppnum | Kiel steinlá

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kiel beið afhroð gegn Göppingen í kvöld.
Kiel beið afhroð gegn Göppingen í kvöld. vísir/getty
Rhein-Neckar Löwen er áfram með fullt hús stiga í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta eftir 11 marka sigur, 31-20, á nýliðum Stuttgart í kvöld.

Sigurinn var afar öruggur en staðan í hálfleik var 19-8, Löwen í vil. Nicolaj Jacobsen, þjálfari Ljónanna, dreifði álaginu vel í kvöld en allir útileikmenn Löwen komust á blað í leiknum.

Uwe Gensheimer var þeirra markahæstur með fimm mörk. Alexander Petersson og Stefán Rafn Sigurmannsson skoruðu báðir tvö mörk.

Löwen er með fjögurra stiga forskot á Kiel sem steinlá, 29-21, fyrir Göppingen á útivelli. Þetta var annað tap lærisveina Alfreðs Gíslasonar í deildinni í vetur en þeir eru strax komnir í eltingarleik við Löwen.

Göppingen var allan tímann með undirtökin og vann sanngjarnan sigur sem kemur liðinu upp fyrir Kiel í 2. sæti deildarinnar.

Christian Sprenger var markahæstur í liði þýsku meistarana með fimm mörk en Steffen Weinhold og Joan Canellas komu næstir með fjögur mörk hvor. Serbinn Zarko Sesum skoraði mest fyrir Göppingen, eða sex mörk.

Lærisveinar Erlings Richardssonar í Füchse Berlin gerðu jafntefli við Flensburg, 30-30, á útivelli.

Petar Nenadic skoraði átta mörk fyrir Berlínarrefina sem leiddu með tveimur mörkum þegar 44 sekúndur voru eftir af leiknum. Danirnir Lasse Svan Hansen og Henrik Toft Hansen sáu hins vegar til þess að Flensburg fékk annað stigið með því að skora tvö síðustu mörk leiksins.

Bjarki Már Elísson var ekki á meðal markaskorara Füchse Berlin sem er með níu stig í 5. sæti deildarinnar, jafnmörg og Flensburg sem er í því sjötta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×