Handbolti

Alfreð hafði betur gegn Geir

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Alfreð Gíslason.
Alfreð Gíslason. vísir/getty
Eftir tap gegn Zagreb í Meistaradeildinni í vikunni komust Alfreð Gíslason og lærisveinar hans í Kiel aftur á sigurbraut í dag.

Kiel átti í engum vandræðum með að pakka Geir Sveinssyni og hans mönnum í Magdeburg saman í Sparibauknum í Kiel, 33-24.

Staðan í hálfleik var 15-10 fyrir Kiel sem tók svo öll völd á vellinum í seinni hálfleik og keyrði yfir Magdeburg-liðið sem Geir kom í Evrópukeppni á fyrsta ári í fyrra.

Rune Dahmke, hornamaðurinn ungi, heldur áfram að fara á kostum á leiktíðinni, en hann skoraði tíu mörk, þar af fimm úr vítum. Dahmke heldur betur að blómstra eftir að fá aukna ábyrgð í Kiel-liðinu.

Matthias Musche var markahæstur í liði Magdeburg með fjögur mörk en þeir Jure Natek, Alexander Saul og Finn Lemke skoruðu allir þrjú mörk.

Kiel er búið að vinna fimm af fyrstu sex leikjum sínum í deildinni og er með tíu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×