Körfubolti

Annar tuttugu stiga leikur Jakobs á tímabilinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jakob Örn Sigurðarson í leik með íslenska landsliðinu.
Jakob Örn Sigurðarson í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Valli
Jakob Örn Sigurðarson og félagar í Borås Basket komust aftur á sigurbraut í kvöld þegar liðið vann afar sannfærandi heimasigur á Jämtland Basket í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta.

Borås Basket vann leikinn á endanum með 26 stiga mun, 115-89, eftir að hafa verið 20 stigum yfir í hálfleik, 61-41.

Borås Basket tapaði í fyrsta sinn á tímabilinu í leiknum á undan sem var á móti sænsku meisturunum í Södertälje Kings. Liðið hefur nú unnið 4 af 5 leikjum sínum á tímabilinu.

Jakob var stigahæstur í liði Borås Basket í kvöld með 22 stig á 29 mínútum en hann var einnig með 4 stoðsendingar og hitti úr 4 af 7 þriggja stiga skotum sínum.

Þetta er í annað skiptið sem Jakob skorar yfir tuttugu stig í þessum fyrstu fimm leikjum Borås-liðsins og íslenski bakvörðurinn er að byrja mjög vel með nýju liði.

Jakob skoraði 14 af 22 stigum sínum í fyrri hálfleiknum en hann hitti úr fjórum síðustu þriggja stiga skotum sínum í leiknum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×