Körfubolti

Með Kristófer undir körfunni getur Furman komið liða mest á óvart

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kristófer Acox, landsliðsmaður í körfubolta, og félagar hans í Furman-háskólanum, eru eitt þeirra litlu liða sem geta komið liða mest á óvart í bandarísku háskólakörfunni í vetur. Kristófer verður lykillinn að því.

Þessu heldur blaðið Washington Post fram í ítarlegri úttekt sinni sem birt er á heimasíðu þessa risastóra blaðs.

Sjá einnig:Rosalega erfitt að vera burtu frá mömmu

Furman átti ekki góðu gengi að fagna á síðustu leiktíð, en liðið hafnaði þá í neðsta sæti suðaustur riðilsins með aðeins fimm sigra og þrettán tapleiki.

„Það eru merki þess að 2016-tímabilið hjá Furman gæti verið eins og í fyrra þrátt fyrir að næstum allt liðið snúi aftur. Stundum virtust leikmennirnir ofurliði bornir,“ segir í úttekinni.

Kristófer Acox spilaði vel á Smáþjóðaleikunum.vísir/andri marinó
Getur orðið einn besti varnarmaðurinn

Aftur á móti horfir til betri vegar ef litið er til síðustu sex leikjanna á síðustu leiktíð. Þar tók Furman varnarleikinn hressilega í gegn og vann fjóra af síðustu sex.

„Lykillinn að þeim árangri var aggresívari varnarleikur. Mótherjarnir skoruðu 1,11 stig að meðaltali í sókn lengst af á tímabilinu gegn Furman en í síðustu tveimur leikjunum skoruðu mótherjar Furman ekki nema 0,96 stig í hverri sókn. Hvað breyttist?“

Sjá einnig:Sautján frákasta kvöld hjá Kristófer Acox

Það sem breyttist var að leikmenn Furman urðu ágengari í varnarleiknum og settu meiri pressu á skytturnar, að því fram kemur í úttekt Washington Post. Þeir gátu leyft sér að gera það því undir körfunni var Kristófer Acox með allt á hreinu.

Hann varði körfuna af stakri snilld og endaði sem frákastahæsti leikmaður riðilsins með 7,5 fráköst að meðaltali í leik.

„Furman-menn komu í veg fyrir auðveldar körfur eftir sóknarfráköst. Þeir náðu ríflega tveimur þriðju frákastanna þegar þeir voru í vörn og Kristófer Acox sýndi að hann getur orðið einn besti varnarmaður deildarinnar,“ segir í úttekt Washingon Post sem lesa má í heild sinni hér.

Kristófer, sem spilaði sína fyrstu A-landsleiki á Smáþjóðaleikunum í sumar, er meira að segja á forsíðu kálfsins í blaðinu sem fjallar um litlu skólana sem geta komið á óvart.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×