Handbolti

Arnór frábær með St. Raphael | Loks sigur hjá Erlingi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arnór í leik með St. Raphael.
Arnór í leik með St. Raphael. Vísir/AFP
St. Raphael fór upp að hlið PSG á toppi frönsku úrvalsdeildarinnar með tveggja marka sigri á Chartres á útivelli, 24-22.

Arnór var næstmarkahæstur í liði St. Raphael með sex mörk en hann klikkaði aðeins á einu skoti í leiknum.  Raphael Caucheteux var markahæstur með sjö mörk.

Liðið hefur nú unnið sjö af fyrstu níu leikjum sínum í deildinni og er með fjórtán stig, jafn mörg og PSG sem á leik til góða.

Langþráður sigur Refanna

Í Þýskalandi unnu lærisveinar Erlings Richardssonar í Füchse Berlin sinn fyrsta sigur í deildinni síðan í byrjun október. Liðið hafði betur gegn Gummersbach á heimavelli, 26-24.

Landsliðsmaðurinn Bjarki Már Elísson var annar markahæstu leikmanna Füchse Berlin með sjö mörk.

Refirnir frá Berlín voru með væna forystu í upphafi síðari hálfleiks en útlitið dökknaði þegar Gummersbach minnkaði muninn í eitt mark og Füchse Berlin missti Fabian Wiede af velli með rautt spjald.

Heimamenn héldu þó út og fögnuðu góðum sigri en með honum fór liðið upp í sjötta sæti deildarinnar en Füchse Berlin er með fimmtán stig, jafn mörg og Hamburg og einu minna en Kiel sem á leik til góða.

Leó skoraði ekki

Í Svíþjóð var Leó Snær Pétursson ekki á meðal markaskorara er lið hans, Malmö, vann Guif, 22-16. Kristján Andrésson er þjálfari Guif.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×