Körfubolti

Jakob og félagar héldu út

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jakob átti fínan leik í kvöld.
Jakob átti fínan leik í kvöld. mynd/facebook-síða borås basket
Íslenski landsliðsmaðurinn Jakob Örn Sigurðarson og félagar hans í sænska úrvalsdeildarliðinu Borås Basket unnu tveggja stiga sigur, 84-82, í Evrópudeildinni í körfubolta í kvöld.

Jakob skoraði níu stig í leiknum, tók þrjú fráköst og gaf fjórar stoðsendingar.

Jakob, sem gekk til liðs við Borås í sumar, nýtti fjögur af sex skotum sínum inni í teig en öll fimm þriggja stiga skot hans geiguðu. Þá setti hann annað af tveimur vítaskotum sínum niður.

Boras var í fínni stöðu eftir þrjá leikhluta en sænska liðið leiddi með 12 stigum, 70-58, fyrir fjórða og síðasta leikhlutann.

Leikmenn Ece Bulls gáfust ekki upp og þjörmuðu all hressilega að Borås-liðinu á lokamínútunum. Austurríkismönnunum tókst þó ekki að minnka muninn í meira en tvö stig og Svíarnir héldu út og fögnuðu góðum sigri.

Með sigrinum komst Borås á topp E-riðils en liðið er með átta stig eftir fimm leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×