Viðskipti erlent

Bónusar auka ekki eljusemi bankamanna að mati forstjóra Deutsche

Þorbjörn Þórðarson skrifar
John Cryan, annar tveggja forstjóra Deutsche Bank.
John Cryan, annar tveggja forstjóra Deutsche Bank.
Forstjóri Deutsche Bank segist ekki skilja hvers vegna honum hafi verið boðin kaupaukagreiðsla og segist ekki leggja harðar af sér á hærri launum.

„Ég hef ekki hugmynd um hvers vegna mér var boðinn samningur með bónusgreiðslu því ég lofa ykkur því að ég mun hvorki leggja meira né minna á mig vegna þess að einhver borgar mér meira eða minna,“ sagði John Cryan annar tveggja forstjóra Deutsche Bank á ráðstefnu í Frankfurt en frá þessu er greint í Financial Times. 

Cryan sagði að laun í fjármálageiranum væru almennt of há og sagðist ekki hafa fulla samúð með fólki sem legði harðar af sér og ynni lengur ef það fengi aðeins meira borgað.

„Ég hef aldrei getað skilið hvers vegna aukinn auður knýr fólk til að hegða sér öðruvísi,“ sagði Cryan sem er 54 ára gamall Breti og menntaður frá Cambridge-háskóla.

Ummæli Cryan hafa eðlilega fallið í grýttan jarðveg meðal kollega hans. Ummælin voru látin falla á sama tíma og Deutsche Bank og aðrir evrópskir bankar keppast við að sannfæra hluthafa um að aukið hlutafé sé skynsamlega nýtt til endurskipulagningar.

Þetta hefur verið erfitt ár fyrir Deutsche Bank sem þurfti að greiða 2,5 milljarða evra sekt vegna þátttöku í Libor-hneykslinu fyrr á þessu ári. Þá hefur bankinn upplýst um að hann muni tapa að minnsta kosti 4,6 milljörðum evra á þessu ári vegna mikilla afskrifta á útlánasafni.

Cryan hefur áður sagt að stefna Deutsche Bank þegar bónusgreiðslur eru annars vegar hljóti að taka mið af þeirri staðreynd að bankinn muni hvorki greiða arð á þessu ári né því næsta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×