Körfubolti

Jakob vann stórsigur á Hlyni í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jakob Sigurðarson í leik á Eurobasket.
Jakob Sigurðarson í leik á Eurobasket. Vísir/Getty
Jakob Sigurðarson fagnaði stórum sigri á móti sínum gömlu félögum í Sundsvall Dragons í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld.

Borås Basket vann leikinn með 29 stiga mun, 101-72, og tók með því þriðja sætið af Hlyni Bæringssyni og hinum drekunum í Sundsvall.

Jakob Sigurðarson var með 17 stig, 4 fráköst og 3 stoðsendingar í kvöld en Hlynur Bæringsson skoraði 9 stig, tók 15 fráköst og gaf 2 stoðsendingar.

Jakob skoraði tvær þriggja stiga körfur og alls átta stig í lokaleikhlutanum sem sáu til þess að sigurinn var nægilega stór til að Borås Basket komst upp fyrir Sundsvall Dragons á betri árangri í innbyrðisviðureignum.

Jakob og félagar hefndu með þessu fyrir 19 stiga skell í síðasta leiknum sínum á móti Drekunum en sá leikur fór fram í Sundsvall.

Borås Basket hafði mikla yfirburði í leiknum, var komið 28-21 eftir fyrsta leikhlutann og vann á endanum alla fjóra leikhlutana. Borås var með fimmtán stiga forskot í hálfleik, 51-36.

Þetta var annað tap Sundsvall Dragons í röð en liðið tapaði með 20 stiga mun á móti Norrköping Dolphins í leiknum á undan.

Sundsvall Dragons hefur unnið 8 af 13 fyrstu deildarleikjum sínum á tímabilinu en Borås er með átta sigra í tólf fyrstu leikjum sínum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×