Handbolti

Holland og Pólland áfram í undanúrslit á HM í Danmörku

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tess Wester, markvörður Hollands, gat leyft sér að brosa í dag.
Tess Wester, markvörður Hollands, gat leyft sér að brosa í dag. vísir/epa
Holland og Pólland tryggðu sér í dag sæti í undanúrslitum á HM kvenna í handbolta í Danmörku.

Hollendingar unnu þriggja marka sigur á Frökkum, 28-25, í Kolding. Þetta er í fyrsta sinn sem Holland kemst í undanúrslit en besti árangur hollenska liðsins var 5. sæti á HM 2005.

Estavana Polman var markahæst í liði Hollands með 10 mörk en hún er ein af markahæstu leikmönnum HM með 37 mörk.

Allison Pineau skoraði átta mörk fyrir Frakka sem mæta Rússum í leiknum um 5. sætið.

Monika Kobylinska skoraði sex mörk fyrir Pólverja gegn Rússum.vísir/getty
Rússar lutu í gras fyrir Pólverjum, 21-20, í Herning. Pólland, sem endaði í 4. sæti á HM í Serbíu fyrir tveimur árum, leiddi með tveimur mörkum í hálfleik, 11-9.

Monika Kobylinska var markahæst í liði Póllands með sex mörk en Karolina Kudłacz-Gloc, samherji Þorgerðar Önnu Atladóttur hjá þýska liðinu HC Leipzig, kom næst með fimm mörk.

Anna Vyakhereva skoraði mest fyrir Rússa, eða fimm mörk.

Holland og Pólland mætast í undanúrslitum á föstudaginn en það kemur í ljós síðar í kvöld hvaða lið mætast í hinum undanúrslitaleiknum. Þá mætast annars vegar Noregur og Svartfjallaland og hins vegar Danmörk og Rúmenía.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×