Handbolti

Naumur sigur Löwen á Magdeburg

Anton Ingi Leifsson skrifar
Alexander í leik með Löwen.
Alexander í leik með Löwen. vísir/getty
Rhein-Neckar Löwen komst aftur á sigurbraut með sigri á Magdeburg, 27-25, í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta. Löwen tapaði illa fyrir Kiel á dögunum, en komu sterkir til leiks í dag og unnu að lokum tveggja marka sigur.

Jafnræði var með liðunum fyrst stundarfjórðunginn þó Löwen hafi alltaf verið skrefi á undan. Ljónin leiddu 7-5 eftir fyrstu fimmtán mínúturnar.

Hægt og rólega fóru svo heimamenn að síga framúr og eftir frábæran lokakafla undir lok fyrri hálfleiks leiddu þeir með sjö mörkum, 16-9.

Getsirnir mættu grimmir til leiks í síðari hálfleik og voru búnir að minnka muninn í eitt mark þegar tólf mínútur voru búnar af síðari hálfleik.

Magdeburg reyndu allt hvað þeir gátu til þess að jafna metin undir lokin, en allt kom fyrir ekki og Ljónin unnu tveggja marka sigur, 27-25.

Stefán Rafn Sigurmannsson komst ekki á blað, en Alexander Petersson skoraði eitt mark. Mads Mensah Larsen gerði átta mörk fyrir Löwen, en Robert Weber var markahæstur hjá Magdeburg með átta.

Löwen er með fjögurra stiga forskot á toppi deildarinnar, en Kiel sem er í öðru sætinu á leik til góða. Magdeburg er í tíunda sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×