Handbolti

Frábær útisigur hjá Rúnari og félögum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Rúnar Kárason skoraði eitt mark í kvöld.
Rúnar Kárason skoraði eitt mark í kvöld. vísir/afp
Rúnar Kárason, landsliðsmaður í handbolta, og félagar hans í Hannover-Burgdorf gerðu sér lítið fyrir og unnu Melsungen í þýsku 1. deildinni í kvöld, 28-25, á útivelli.

Melsungen var í fjórða sæti fyrir leikinn og hefur verið eitt besta lið deildarinnar, en Hannover, sem var 14-11 undir í hálfleik. tók völdin í seinni hálfleiknum og innbyrti frábæran sigur.

Sjá einnig:Kiel niðurlægði Ljónin og minnkaði forskotið á toppnum í tvö stig

Rúnar og félagar eru nú búnir að vinna fjóra leiki í röð og eru komnir með 22 stig. Þeir nálgast nú Evrópubaráttuna en Rúnar skoraði eitt mark úr tveimur skotum í leiknum.

Eisenach hafði svo betur í Íslendingaslag gegn Bergischer, 28-26, en landsliðsmennirnir Björgvin Páll Gústavsson og Arnór Þór Gunnarsson spila með Bergischer.

Arnór Þór skoraði fimm mörk í kvöld, þar af eitt úr vítakasti en hann var með 100 prósent skotnýtingu. Björgvin Páll var sterkur í marki gestanna.

Ólafur Bjarki Ragnarsson skoraði eitt mark úr tveimur skotum fyrir heimamenn í Eisenach sem komust upp fyrir Bergischer með sigrinum og sendi það niður á fallsvæðið.

Eisenach er með átta stig eftir 19 leiki en Bergischer með sjö stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×