Handbolti

Kiel niðurlægði Ljónin og minnkaði forskotið á toppnum í tvö stig

Alfreð Gíslason lætur heyra í sér í kvöld.
Alfreð Gíslason lætur heyra í sér í kvöld. vísir/getty
Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar ætla ekki að afhenda Þýskalandsmeistaratitilinn sinn til Rhein-Neckar Löwen svo auðveldlega eins og sást þegar liðin mættust í stórleik þýsku 1. deildarinnar í kvöld.

Kiel niðurlægði topplið Löwen með ellefu marka sigri, 31-20, eftir að þremur mörkum munaði á liðunum í hálfleik, 12-9.

Heimamenn spiluðu frábæra vörn allan leikinn og fengu fullt af auðveldum mörkum úr hraðaupphlaupum, sérstaklega undir lokin þegar gestirnir voru byrjaðir að spila með aukamann í sókninni.

Joan Canellas, spænska stórskyttan, fór hamförum fyrir Kiel og skoraði átta mörk. Hann bauð meðal annars upp á líklega fyrsta °360-mark handboltasögunnar fyrir utan punktalínu. Maðurinn var óstöðvandi.

Rafael Baena var í miklum slagsmálum við varnarmenn Kiel í kvöld.vísir/getty
Löwen var án Uwe Gensheimer í kvöld en þýski hornamaðurinn er meiddur. Stefán Rafn Sigurmannsson fékk því tækifærið og nýtti það vel.

Íslenski landsliðsmaðurinn skoraði fimm mörk úr sex skotum og var sá eini í liði Ljónanna sem átti í engum vandræðum með að koma boltanum framhjá öflugum Nicklas Landin í markinu.

Alexander Petersson fékk höfuðhögg snemma leiks og kom lítið við sögu eftir það. Gestirnir urðu svo fyrir öðru áfalli undir lok seinni hálfleiks þegar þýski landsliðshornamaðurinn Patrick Groetzki meiddist og gat ekki tekið frekari þátt í leiknum.

Kiel er nú búið að vinna tíu leiki í röð, en lærisveinar Alfreðs hafa verið óstöðvandi í þýsku deildinni síðan þeir töpuðu fyrir Löwen á útivelli í byrjun október.

Með sigrinum minnkaði Kiel forskot Rhein-Neckar Löwen á toppnum niður í tvö stig, en Kiel er nú með 32 stig og Löwen 34.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×