Handbolti

Ólafur skoraði fimm mörk í 18. sigri Kristianstad í röð

Tómas Þo´r Þóraðrson skrifar
Ólafur skoraði fimm mörk í kvöld.
Ólafur skoraði fimm mörk í kvöld. mynd/kristianstad
Ólafur Guðmundsson, landsliðsmaður í handbolta, og félagar hans í Kristianstad halda áfram að drottna yfir sænsku úrvalsdeildinni í handbolta.

Kristianstad er enn með fullt hús í deildinni en liðið vann 18. deildarleikinn í röð í kvöld þegar liðið lagði Ystads auðveldlega á heimavelli, 32-21.

Ólafur hefur spilað mjög vel fyrir Kristianstad síðan hann gekk aftur í raðir liðsins frá Þýskalandi en hann skoraði fimm mörk í kvöld.

Kristianstad er með 36 stig eftir 18 umferðir en Alingsås er í öðru sæti með 29 stig eftir sigur í kvöld.

Íslendingarnir í liði Ricoh klúðruðu ekki skoti í 22-25 tapi gegn lærisveinum Kristjáns Andréssonar í Guif í kvöld.

Tandri Mán Konráðsson skoraði tvö mörk úr tveimur skotum fyrir Ricoh og Magnús Óli Magnússon eitt mark úr eina skotinu sem hann tók í leiknum.

Forysta Guif frá Eskilstuna var örugg allan leikinn en liðið var 19-12 yfir í hálfleik og náði Ricoh aldrei að ógna gestunum almennilega.

Línumaðurinn Atli Ævar Ingólfsson skoraði svo eitt mark úr tveimur skotum fyrir Sävehof sem gerði dramatískt jafntefli við Karlskrona á útivelli í kvöld, 27-27.

Jafnt var á öllum tölum frá 24-24 en síðustu sex mínútur leiksins voru æsispennandi. Ole Forsell tryggði gestunum annað stigið með marki þegar 26 sekúndur voru eftir.

Ricoh féll niður úr tíunda sætinu í það ellefta vegna tapsins í kvöld en Guif er í níunda sæti deildarinnar með 18 stig, tveimur stigum frá sæti í úrslitakeppninni þegar 18 umferðum er lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×