Handbolti

Tveir nýkrýndir heimsmeistarar hjá Þóri þurfa að leita að nýju félagi í vor

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Camilla Herrem fagnar hér titlinum með félögum sínum í norska landsliðinu.
Camilla Herrem fagnar hér titlinum með félögum sínum í norska landsliðinu. Vísir/Getty
Tveir leikmenn Þóris Hergeirssonar í norska kvennalandsliðinu í handbolta fengu leiðinlegar fréttir þegar þær voru að keppa á heimsmeistaramótinu í Danmörku.

Norska landsliðið tryggði sér heimsmeistaratitilinn í annað skiptið undir stjórn Selfyssingsins með því að vinna átta marka sigur Hollandi í úrslitaleiknum. Það voru frábærar fréttir og hjálpuðu heilmikið.

Markvörðurinn Silje Solberg og hornamaðurinn Camilla Herrem spila báðar með danska liðinu Tvis Holstebro en þeim var tjáð það rétt fyrir undanúrslitaleikinn á móti Rúmeníu að félagið ætli að láta þær fara í vor.

Danska félagið á miklu fjárhagsvandræðum og þarf að losa sex leikmenn í vor ef ekki á illa að fara.

„Ég fékk að vita að þeir ættu ekki peninga til að halda öllum leikmönnunum sínum. Við Silja höfum talað heilmikið saman um hvað við viljum gera á næsta ári. Það er ekki gott að vera alltaf að flytja. Það er leiðinlegt að þetta gerist vegna fjárhagsvandræða," sagði Camilla Herrem við Dagbladet.

Camilla Herrem er á sínu fyrsta ári með Team Tvis Holstebro en hún lék áður með HCM Baia Mare í Rúmeníu. Þar á undan var hún í átta ár hjá Byåsen.

„Við munum skoða þetta betur eftir jólin en nú ætlum við bara heim til að njóta jólanna með fjölskyldunni," sagði Herrem.

Camilla Herrem varð markahæst í norska liðinu í úrslitaleiknum með sjö mörk en hún varð ennfremur næstmarkahæst í liði heimsmeistaranna á mótinu. Það voru bara fimmtán leikmenn sem skoruðu meira en Herrem á mótinu.

Silje Solberg stóð sig líka vel sem varamarkvörður norska liðsins. Hún varð í 7. sæti yfir bestu hlutfallsmarkvörsluna og í 3. sæti yfir bestu vítamarkvörsluna. Silje Solberg fékk þó aðeins að reyna að verja eitt víti í úrslitaleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×