Handbolti

Sigurbergur og félagar á toppinn eftir níunda sigurinn í röð

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sigurbergur Sveinsson skoraði eitt mark í kvöld.
Sigurbergur Sveinsson skoraði eitt mark í kvöld. vísir/ernir
Sigurbergur Sveinsson skoraði eitt mark úr einu skoti fyrir Team Tvis Holstebro þegar það vann SönderjyskE, 28-26, í Íslendingaslag í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Árni Steinn Steinþórsson skoraði fjögur mörk úr sjö skotum fyrir gestina í SönderjyskE og Daníel Andrésson varði átta skot og var með 31 prósent hlutfallsmarkvörslu.

Holstebro var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 16-12, og fimm mörkum yfir eftir 40 mínútur, 20-15, en þá fóru gestirnir í gang.

Þeir minnkuðu muninn í eitt mark, 26-25, þegar fimm mínútur voru eftir en heimamenn voru sterkari á lokasprettinum og unnu góðan sigur, 28-26.

Þetta er níundi sigur Team Tvis Holstebro í röð í dönsku úrvalsdeildinni og komst liðið með sigrinum upp í efsta sætið þegar 17 umferðum er lokið.

Það hirti toppsætið af Skjern og er nú með 26 stig en SönderjyskE er í áttunda sæti af fjórtán liðum með 17 stig.

Egill Magnússon er einnig á mála hjá Holstebro en hann hefur glímt við erfið meiðsli undanfarið og var ekki með í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×