Handbolti

Sjáðu töfrasendingu Arons á móti Flensburg

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Pálmarsson og félagar í ungverska stórliðinu Veszprém unnu gríðarlega sterkan útisigur á þýska liðinu Flensburg, 29-28, í 13. og næstu síðustu umferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar í handbolta um helgina.

Aron hafði hægt um sig í markaskorun en stýrði leik Veszprém-liðsins snilldarlega gegn Flensburg. Með sigrinum komst Veszprém upp fyrir Flensburg í annað sæti riðilsins og á möguleika á að hirða efsta sætið í lokaumferðinni.

Efsta lið A og B-riðils kemst beint í átta liða úrslitin og er því að miklu að keppa í lokaumferðinni. Veszprém mætir þar Wisla Plock frá Póllandi en topplið PSG fær Flensburg í heimsókn.

Íslenski landsliðsmaðurinn skorar sum af ótrúlegustu mörkum handboltaheimsins en hann er ekkert síður þekktur fyrir magnaðar sendingar þegar hann leggur upp mörk fyrir liðsfélaga sína.

Aron bauð upp á töfrabrögð þegar hann sendi boltann aftur fyrir sig á Renato Sulic snemma í seinni hálfleik á móti Flensburg, en með markinu minnkaði Króatinn muninn í 15-14.

Þessa ótrúlegu sendingu Arons Pálmarssonar má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×