Körfubolti

Liðin hita upp fyrir úrslitakeppnina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Helgi Pálsson og félagar í Njarðvík geta náð Stjörnunni að stigum með sigri í leik liðanna í Ljónagryfjunni Njarðvík í kvöld.
Haukur Helgi Pálsson og félagar í Njarðvík geta náð Stjörnunni að stigum með sigri í leik liðanna í Ljónagryfjunni Njarðvík í kvöld. Fréttablaðið/Vilhelm
Aðeins fjórar umferðir eru eftir af deildarkeppni Domino’s-deildar karla og fram undan er æsispennandi lokasprettur hjá liðunum í baráttunni um heimavallarrétt og sæti í úrslitakeppninni.

Nítjánda umferðin fer fram í dag og á morgun og það má vel færa rök fyrir því að þar sé verið að hita upp fyrir úrslitakeppnina. Liðin sem mætast í þessari umferð myndu nefnilega mætast í átta liða úrslitunum ef þau halda núverandi sætum sínum þegar deildarkeppninni lýkur.

Tveir leikjanna fara fram í kvöld þegar KR (1. sæti) tekur á móti Grindavík (8. sæti) í Vesturbænum og Njarðvík (6. sæti) fær Stjörnuna (3. sæti) í heimsókn í Ljónagryfjuna í Njarðvík. Leikur Njarðvíkur og Stjörnunnar verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 4.

Á morgun taka Keflvíkingar (2. sæti) síðan á móti Tindastól (7. sæti) á sama tíma og Þórsarar (5. sæti) heimsækja Hauka (4. sæti) á Ásvelli. Leikur Keflavíkur og Tindastóls verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Það fara líka fram leikir sem ráða miklu um fallbaráttuna í kvöld. Höttur verður að vinna Kanalausa ÍR-inga á Egilsstöðum til að eiga möguleika á því að halda sæti sínu í deildinni og Snæfell tryggir sér áframhaldandi sæti í deildinni með sigri á FSu í Hólminum.

Hattarmenn geta þarna unnið annan leikinn sinn í röð og haldið sér á lífi en um leið hjálpað FSu að minnka fjögurra stiga forskot ÍR-liðsins sem myndi þá fara á kaf í fallbaráttuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×