Handbolti

Dramatísk endurkoma hjá Sigurbergi og félögum í lokin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigurbergur í leik með íslenska landsliðinu.
Sigurbergur í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Ernir
Sigurbergur Sveinsson og félagar í Tvis Holstebro unnu dramatískan eins marks heimasigur á Bjerringbro SV, 26-25, í toppslag í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Það stefndi þó ekki í sigur Tvis Holstebro í lokin því Bjerringbro SV var 24-21 yfir þegar sjö mínútur voru eftir af leiknum.

Tvis Holstebro var sterkara á lokasprettinum, vann hann 5-2 og tryggði sér sigurinn með því að skora tvö síðust mörkin í leiknum.Tvis Holstebro er því áfram í efsta sæti deildarinnar en  Bjerringbro SV var í þriðja sætinu fyrir leik kvöldsins.

Sigurbergur Sveinsson átti flottan leik og skoraði fimm mörk úr aðeins sjö skotum. Egill Magnússon skoraði ekki en var í hóp.

Sören Tau Sörensen var hetja Tvis Holstebro í leiknum því hann skoraði sigurmarkið fimm sekúndum fyrir leikslok. Það var eina mark hans í leiknum.

Sigurbergur var annar markahæsti leikmaður Tvis Holstebro á eftir Peter Balling sem skoraði sjö mörk. Sigurbergur skoraði tvö mörk í röð á mikilvægum kafla undir lok leiksins þegar hann minnkaði muninn í 20-21 og 21-22.

Tvis Holstebro hafði tapað leiknum á undan og sigurinn var því nauðsynlegur til að halda toppsæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×