Viðskipti erlent

Dominos þróar pítsusendlavélmenni

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Svona lítur hið tignarlega vélmenni út.
Svona lítur hið tignarlega vélmenni út. Mynd/Marathon Robotics
Dominos vinnur nú hörðum höndum að því að þróa vélmenni sem sendir nýbakaðar pítsur beint heim að dyrum.

Vélmennið er búið fjórum hjólum og sérstökum skynjurum sem gerir því kleyft að komast framhjá hindrunum sem verða á vegi þess. Vélmennið kemst allt að tuttugu kílómetra frá hverju útibúi Dominos.

Í því er hitageymsla þar sem koma má fyrir allt að tíu pítsum. Einnig er vélmennið útbúið kæli svo að drykkirnir haldist nú kaldir. Þegar komið er heim að dyrum þurfa svangir viðskiptavinir Dominos að stimpla inn kóða og opnast þá rétt hólf hitageymslunnar.

Það verður að játast að þetta hljómar grunsamlega líkt auglýsingabrellu af hálfu Dominos en í samtali við bandaríska vefmiðilinn Mashable staðfesti forstjóri Dominos að vélmenni væri í raun og veru í þróun fyrir Dominos.

Aðdáendur Dominos hér á landi þurfa þó að bíða eftir að vélmennið sjáist á götum landsins. Það er Dominos í Ástralíu sem stendur að þróun vélmennisins í samstarfi við Marathon Robotics, fyrirtæki sem hingað til hefur sérhæft sig í að búa til skotmörk fyrir æfingar her- og lögreglumanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×