Handbolti

Ólafur og félagar lentu sjö mörkum undir í seinni hálfleik en unnu samt

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ólafur Guðmundsson skoraði tvö mörk í kvöld.
Ólafur Guðmundsson skoraði tvö mörk í kvöld. mynd/ifk
Ólafur Guðmundsson, landsliðsmaður í handbolta, og félagar hans í liði Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni lögðu Redbergslid á útivelli í kvöld, 30-27.

Það telst svo sem ekkert til tíðinda að Kristianstad, sem er nú með tólf stiga forskot í deildinni og fyrir löngu orðið deildarmeistari, hafi unnið leik. Í kvöld lenti toppliðið þó í erfiðleikum með Redbergslid sem er í sjötta sæti deildarinnar, 17 stigum á eftir Kristianstad.

Heimamenn stríddu toppliðinu mikið og voru þremur mörkum yfir í hálfleik, 17-14. Þeir náðu svo mest sjö marka forskoti, 23-16, þegar 20 mínútur voru eftir.

Þá settu deildarmeistararnir í gírinn og skoruðu níu mörk á móti tveimur mörkum Redbergslid og jöfnuðu í 25-25. Þeir sigldu svo á endanum góðum sigri í höfn, 30-27. Ólafur Guðmundsson hafði hægt um sig í kvöld og skoraði aðeins tvö mörk í þremur skotum.

Íslendingaliðið Ricoh vann einnig virkilega sterkan og þýðingarmikinn sigur á næst besta liði deildarinnar, Alingsås, 22-21, í kvöld.

Heimamenn í Ricoh voru marki yfir í hálfleik, 10-9, og unnu leikinn með einu marki, 22-21, eftir spennandi lokamínútur. David Florander skoraði sigurmark Ricoh þegar 37 sekúndur voru eftir.

Alingsås er í öðru sæti deildarinnar á eftir Kristianstad en Ricoh treysti stöðu sína í tíunda sætinu með sigrinum í kvöld. Liðið er nú með 18 stig og gæti með þessu áframhaldi komist hjá því að fara í umspil um áframhaldandi veru í deildinni.

Tandri Már Konráðsson skoraði fjögur mörk í sjö skotum fyrir Ricoh í kvöld en Magnús Óli Magnússon skoraði eitt mark í þremur skotum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×