Handbolti

Arnór til Álaborgar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnór leikur með Aalborg næstu þrjú árin.
Arnór leikur með Aalborg næstu þrjú árin. mynd/heimasíða aalborg
Landsliðsmaðurinn Arnór Atlason hefur skrifað undir þriggja ára samning við danska 1. deildarliðið Aalborg Håndbold. Þetta kemur fram á heimasíðu Aalborg.

Arnór kemur til Aalborg frá franska liðinu Saint Raphael sem hann hefur leikið með frá árinu 2013. Arnór, sem verður 32 ára á árinu, þekkir vel til í Danmörku en hann lék þar á árunum 2006-12; fyrst með FCK Håndbold og svo ofurliði AG Köbenhavn sem varð til með samruna FCK og AG Håndbold.

„Aalborg er spennandi félag með góða leikmenn og frábæran heimavöll í Jutlander Bank Arena. Ég hlakka til að snúa aftur í dönsku deildina og hjálpa Aalborg að vinna titla,“ er haft eftir Arnóri á heimasíðu Aalborg.

Arnór er þriðji leikmaðurinn sem hefur samið við Aalborg á síðustu vikum en áður var liðið búið að tryggja sér þjónustu Patrick Wiesmach og Tobias Ellebæk. Wiesmach, sem leikur með toppliði Team Tvis Holstebro, er markahæsti leikmaður dönsku deildarinnar og Ellebæk (Mors-Thy) er númer fimm á markalistanum.

Arnór er fyrirliði Saint Raphael sem er í 2. sæti frönsku deildarinnar, sex stigum á eftir toppiliði Paris Saint-Germain. Arnór er þriðji markahæsti leikmaður liðsins á tímabilinu með 55 deildarmörk. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×