Körfubolti

Ítalskt félag hafði áhuga á Hauki: Var eiginlega drepið í fæðingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Helgi Pálsson.
Haukur Helgi Pálsson. Vísir/Anton
Íslenski landsliðsmaðurinn Haukur Helgi Pálsson hefði getað farið til ítalska félagsins Cantú á dögunum en þegar Haukur samdi við Njarðvík í haust þá var ekkert ákvæði í samningi hans um að hann gæti farið út áður en tímabilinu lýkur.

Haukur Helgi staðfesti áhuga ítalska félagsins í viðtali við Morgunblaðið í dag.

„Það var ekki komið tilboð á borðið heldur fyrirspurn og mikill áhugi. Ég er ekki með það inn í samningi mínum við Njarðvík að geta farið út aftur svo þetta var eiginlega drepið í fæðingu," sagði Haukur Helgi Pálsson í samtali við Guðmund Hilmarsson á Morgunblaðinu.

Haukur Helgi er að koma til baka eftir hnémeiðsli og lék sinn fyrsta leik með Njarðvíkurliðinu í nokkurn tíma í lokaumferð deildarkeppninnar.

Haukur vildi komast til ítalska liðsins en Njarðvíkingar voru ekki tilbúnir að missa hann rétt fyrir úrslitakeppni.  

„Ég ræddi aðeins við Njarðvíkingana. Þetta var spennandi og ég er spenntur fyrir því að komast aftur út en svona er þetta bara. Ég verð að standa við gerðan samning og ég skil vel sjónarmið Njarðvíkinga," sagði Haukur í fyrrnefndu viðtali.

Haukur Helgi var með 18,4 stig, 7,3 fráköst og 4,1 stoðsendingu að meðaltali með Njarðvík í deildarkeppninni en liðið vann 9 af 16 leikjum sem hann spilaði en tapaði 4 af 6 leikjum án hans.

AV Cantu er eins og er í 10. sæti ítölsku deildarinnar og í mikilli baráttu um sæti í úrslitakeppninni. Cantu er á Norður-Ítalíu rétt fyrir norðan Mílanó.

Haukur mun því klára tímabilið með Njarðvík og framundan er einvígi við Stjörnuna í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×