Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Grindavík - Njarðvík 100-85 | Grindavík í úrslitakeppnina

Tómas Þór Þórðarson í Röstinni skrifar
Grindvíkingar unnu stórsigur í kvöld.
Grindvíkingar unnu stórsigur í kvöld. vísir/vilhelm
Grindavík komst í kvöld í úrslitakeppni Dominos-deildar karla í körfubolta eftir fimmtán stiga sigur á nágrönnum sínum úr Njarðvík, 100-85. Þór Þorlákshöfn gerði Grindjánum greiða með að vinna Snæfell en hefði Snæfell unnið væri sigur Grindvíkinga þýðingarlaus.

Ekkert varð úr endurkomu Stefan Bonneau eins og Njarðvíkingar voru sama og búnir að lofa á Facebook-síðu sinni. Friðrik Ingi Rúnarsson sér greinilega ekki um hana. Bonneau var í búning og á skúýrslu og voru fjölmargir stuðningsmenn Njarðvíkur mættir vel fyrir leik, spenntir fyrir að sjá Bonneau. Allt kom fyrir ekki. Mjög svekkjandi.

Njarðvíkingar byrjuðu betur og leiddu framan af fyrsta leikhluta. Það gátu þeir þakkað frábærri hittni fyrir utan þriggja stiga línuna, en gestirnir úr Ljónagryfjunni hittu úr fimm af átta fyrstu þriggja stiga skotunum sínum.

Þá gerðist eitthvað. Njarðvíkingar gátu ekki keypt sér körfu fyrir utan þriggja stiga línuna, en það var lykillinn að góðri byrjun liðsins. Grænir hittu ekki úr næstu átta þriggja stiga skotum þar til Haukur Helgi Pálsson hjó á hnútinn í öðrum leikhluta. Eftir að byrja fimm af átta í þristum gengu Njarðvíkingar til búningsklefa með sex þriggja stiga körfur í 18 tilraunum.

Grindvíkingar voru ekkert að hitta fyrir utan og treystu því á leikinn undir körfunni þar sem Ómar Örn Sævarsson og Chuck Garcia voru virkilega öflugir. Þeir skoruðu samtals 24 af 50 (Chuck 13, Ómar 11) stigum heimamanna í fyrri hálfleik og tóku samtals 15 fráköst.

Njarðvíkingum gekk afskaplega illa að halda aftur af Chuck sem virkaði mjög ferskur eftir að yfirgefa völlinn andstuttur, að sögn Grindjána, í leiknum gegn Tindastóli fyrr í vikunni. Hann tók sex sóknarfráköst í fyrri hálfleik, þar af þrjú eftir eigin skot og skoraði sjálfur.

Það var allt annað að sjá Grindvíkinga í fyrri hálfleik heldur en í undanförnum leikjum. Liðið hefur verið svakalega andlaust og tapað fjórum leikjum í röð. Leiklé þjálfarans Jóhanns Ólafssonar gegn Haukum á dögunum sýndu bersýnilega andleysið í liðinu.

Í dag var harka í Grindjánum sem fögnuðu öllum körfum, stálu bolta eftir innkast hjá Njarðvík og fiskuðu villu upp úr því. Þegar þeir fiskuðu svo ruðning á Hauk Helga Pálsson ætlaði allt um koll að keyra í Röstinni. Gulir höfðu bara gaman að því að spila körfubolta.

Haukur Helgi Pálsson kom sterkur inn í seinni hálfleikinn og virtist ætla að leiða sína menn til baka eftir að gestirnir voru átta stigum undir í hálfleik, 50-42. Hann þurfti lengi vel að bera upp sóknarleikinn og bera upp boltann sem þreytti besta mann liðsins. Hann endaði með 20 stig en var kominn í villuvandræði snemma í seinni hálfleik.

Þorleifur Ólafsson fór í ham í seinni hálfleik og skoraði í heildina 27 stig, þar af sex þriggja stiga körfur í ellefu tilraunum. Hann og stóru strákarnir í teignum, Ómar og Chuck, voru lykilinn í sóknarleiknum. Ómar og Chuck skoruðu saman 41 stig og tóku 23 fráköst. Grindvíkingar völtuðu yfir Njarðvíkinga í frákastabaráttunni, 53-36.

Jeremy Atkinson var atkvæðamestur Njarðvíkinga með 28 stig og 17 fráköst. Hann var stundum eins manns her í sóknarleiknum en barðist fyrir erfiðum körfum í vel pökkuðum og þéttum vítateig Grindvíkinga.

Eins og í síðasta leik gegn Haukum reyndu Njarðvíkingar hetjulega endurkomu eftir að lenda mest 20 stigum undir, 76-56. Þeir minnkuðu muninn í níu stig, 90-81, þökk sé Atkinson og framlagi ungu strákanna. Það var mikið hjarta í ungu ljónunum; Adam Eiður kom sterkur af bekknum með þrettán stig og Jón Arnór Sverrisson spilaði flotta vörn og skoraði tvær þriggja stiga körfur.

Njarðvík var án Loga Gunnarssonar og Maciej Baginski. Meiðslavandræði Njarðvíkinga halda áfram og haltra þeir í úrslitakeppnina þar sem þeir mæta Stjörnunni. Grindavík fær það erfiða verkefni að mæta Íslands, bikar- og deildarmeisturum KR.

Grindavík: Þorleifur Ólafsson 27/5 fráköst, Charles Wayne Garcia Jr. 21/13 fráköst/5 stoðsendingar, Ómar Örn Sævarsson 20/10 fráköst, Jón Axel Guðmundsson 16/13 fráköst/7 stoðsendingar, Jóhann Árni Ólafsson 7/6 fráköst, Hilmir Kristjánsson 6, Ingvi Þór Guðmundsson 3.

Njarðvík: Jeremy Martez Atkinson 28/17 fráköst/5 stoðsendingar, Haukur Helgi Pálsson 20, Adam Eiður Ásgeirsson 13, Oddur Rúnar Kristjánsson 8, Jón Arnór Sverrisson 6, Oddur Birnir Pétursson 4/4 fráköst, Hjörtur Hrafn Einarsson 4, Ólafur Helgi Jónsson 2

Friðrik messar hér yfir sínum mönnum.vísir/ernir
Friðrik Ingi: Komum svellkaldir inn í úrslitakeppnina

Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Njarðvíkur, þurfti að játa sig sigraðar í Grindavík í kvöld. Hann var virkilega ánægður með frammistöðu yngri leikmanna liðsins.

"Eldri mennirnir eiga að ganga frammi fyrir skjöldu en ekki þeir ungu eins og var í dag. Það bara náðist ekki að fá glæður í það í dag. Framlag ungu mannanna var til fyrirmyndar í dag og við þurfum á því að halda að stækka hópinn vegna þeirra hremminga sem við erum í. Það veitir ekki af að koma fleirum inn í þetta," sagði Friðrik Ingi við Vísi eftir leik.

Þó leikmenn á borð við Adam Eið og Jón Arnór voru virkilega kappsfullir í dag vantaði meiri reynslu og gæði í sókninni þegar mest á þurfti að halda, líkt og gegn Haukum í síðasta leik.

"Þeir eru að læra inn á þetta allt saman, en þeir gerðu allt sem var hægt að ætlast til af þeim og rúmlega það. Það veiti ekki af fyrir komandi átök að fá framlag frá fleirum," sagði Friðrik Ingi sem hefur ekki miklar áhyggjur af því, að Njarðvík komi inn í úrslitakeppnina eftir að tapa fjórum leikjum í röð.

"Veistu það, ég er ekkert sérstaklega upptekinn af því. Þetta getur breyst á svo stuttum tíma. Sjálfstraust getur fæðst og dáið á einum sólarhring. Við náum vonandi bara að stilla saman strengi og fáum vonandi að vita fljótlega hverjir verða klárir í slaginn. Við förum svellkaldir inn í þessa úrslitakeppnina."

Stefan Bonneau var á skýrslu í dag en spilaði ekkert sem svekkti stuðningsmenn Njarðvíkur enda var nánast búið að lofa því að hann myndi spila.

"Það var kannski pínulítill möguleiki á því. Við vorum kannski meira að taka hann inn í hópinn. Hann nálgast endurkomu þannig við viljum fá hann inn í hópinn og leyfa honum að finna andann. Það er aldrei að vita nema hann spili eitthvað í næsta leik," sagði Friðrik Ingi Rúnarsson.

 

Jóhann Þór Ólafsson ræðir við sína menn.Vísir/Ernir
Jóhann Þór: Getum unnið KR

"Við þurftum að vinna þennan leik," sagði sigurreifur Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, eftir fimmtán stiga sigur á Njarðvík í kvöld.

Grindavík var búið að tapa fjórum í röð fyrir sigurinn í kvöld og fékk svakalegan skell á heimavelli í beinni sjónvarpsútsendingu gegn Haukum í síðustu viku.

"Við vorum búnir að grafa okkur ofan í ákveðna holu eftir skituna á móti Haukum þannig við ákváðum bara að moka ofan í hana og halda áfram. Við fáum að halda áfram þökk sé úrslitum kvöldsins," sagði Jóhann Þór.

"Það var allt eða ekkert í kvöld. Ég er mjög ánægður með hvernig strákarnir komu til leiks. Þeir voru flottir en kannski máttum við stundum gera betur í stöðunni þrír á tvo í sókninni. Að skora 100 stig er flott."

Grindavík mætir Íslands, bikar- og deildarmeisturum KR í úrslitakeppninni. Jóhann telur sína menn eiga séns í vesturbæjarstórveldið.

"Við erum búnir að spila þrisvar við KR í vetur og það vantaði bara alltaf að halda út. Ef við náum að keppa við þá í 40 mínútur þá er aldrei að vita hvað gerist. Það hefur gengið á ýmsu í vetur en við erum með flott lið," sagði Jóhann Þór Ólafsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×