Handbolti

Ólafur Bjarki kom að átta mörkum í sigri Eisenach | Oddur með stórleik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ólafur Bjarki í landsleik gegn Þjóðverjum.
Ólafur Bjarki í landsleik gegn Þjóðverjum. vísir/getty
Ólafur Bjarki Ragnarsson skoraði fjögur mörk fyrir Eisenach sem vann lífsnauðsynlegan sigur, 22-24, á TuS N-Lübbecke í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag.

Ólafur Bjarki og félagar eru nú aðeins einu stigi frá öruggu sæti og eiga auk þess leik til góða á Bergischer sem er í sætinu fyrir ofan.

Auk þess að skora fjögur mörk átti Ólafur Bjarki fjórar stoðsendingar á samherja sína í kvöld.

Í B-deildinni átti Oddur Gretarsson stórleik þegar TV Emsdetten vann sjö marka sigur, 29-22, á Minden á heimavelli. Með sigrinum komst Emsdetten upp í 8. sæti deildarinnar.

Oddur skoraði 11 mörk, þar af fimm úr vítum, og brenndi ekki af skoti í leiknum. Ernir Hrafn Arnarson skoraði þrjú mörk fyrir Emsdetten en Anton Rúnarsson komst ekki á blað.

Það gekk ekki jafn vel hjá Rúnari Sigtryggssyni og lærisveinum hans í Aue en þeir biðu lægri hlut, 21-19, fyrir Nordhorn-Lingen á útivelli.

Árni Þór Sigtryggsson skoraði tvö mörk fyrir Aue, bæði úr vítaköstum. Bjarki Már Gunnarsson komst ekki á blað en Sveinbjörn Pétursson varði fjögur skot í markinu. Sigtryggur Rúnarsson er frá vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×