Handbolti

Snorri Steinn fékk rautt spjald en ekki Ásgeir Örn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ásgeir Örn Hallgrímsson.
Ásgeir Örn Hallgrímsson. Vísir/Getty
Íslensku landsliðsmennirnir Ásgeir Örn Hallgrímsson og Snorri Steinn Guðjónsson fóru fyrir franska liðinu Nimes í 28-28 jafntefli á móti Ivry í frönsku handboltadeildinni í kvöld.

Íslensku strákarnir skoruðu saman þrettán mörk og voru tveir af þremur markahæstu leikmönnum Nimes í leiknum.

Ásgeir Örn Hallgrímsson átti frábæran leik og skoraði úr öllum sjö skotum sínum. Samkvæmt tölfræðisíðu franska sambandsins þá fékk hann rautt spjald þegar níu mínútur voru eftir af leiknum. Það er hinsvegar ekki rétt því það var Snorri Steinn sem fékk þetta rauða spjald.

Frakkarnir rugluðust á íslensku landsliðsmönnunum sem verður að teljast nokkuð sérstakt.

Snorri Steinn Guðjónsson skoraði 6 mörk úr 11 skotum en hann nýtti öll þrjú vítin sín í leiknum.

Nimes var þremur mörkum yfir þegar aðeins sjö mínútur voru eftir af leiknum, 26-23, en Ivry tryggði sér stig með því að vinna lokamínúturnar 5-2.

Staðan var 14-16 fyrir Ivry í hálfleik en Nimes var komið 24-23 yfir þegar Snorri Steinn fékk rauða spjaldið.

Ásgeir Örn og Snorri Steinn voru tveir markahæstu menn liðsins þegar Snorri Steinn var sendur í sturtu en Benjamin Gallego skoraði mikilvæg mörk á lokakaflanum og var næstmarkahæstur ásamt Snorra.

Nimes hefur aðeins náð að vinna einn af síðustu sjö deildarleikjum sínum og tapaði stigum á heimavelli í kvöld á móti þriðja neðsta liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×