Handbolti

Guðjón: Hlakka til að sjá hvað Geir ætlar að gera

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Guðjón Valur á æfingunni í kvöld.
Guðjón Valur á æfingunni í kvöld. vísir/vilhelm
Landsliðsfyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson var mættur á sína fyrstu æfingu hjá nýjum landsliðsþjálfara, Geir Sveinssyni, í Víkinni í kvöld.

Fyrirliðinn fékk frí í leikjunum tveimur gegn Noregi og þeir Bjarki Már Elísson og Stefán Rafn Sigurmannsson fengu að sanna sig í staðinn.

„Það var ákvörðun þjálfarans að hvíla mig og maður hlýðir því. Það voru engin leiðindi í kringum það. Annars væri ég ekki hér,“ segir Guðjón léttur en hann var eðlilega ánægður með að landsliðið væri loks komið með þjálfara.

„Það er fínt að það sé búið að leysa þessi mál. Það tók sinn tíma en þeir sem vita hvernig samningamál ganga fyrir sig í Þýskalandi voru kannski farnir að geta lagt saman tvo og tvo.“

Guðjón er búinn að vera lengi í bransanum. Svo lengi að hann náði að vera með Geir í landsliðinu.

„Ég hef þekkt Geir í gegnum tíðina. Ég náði æfingum með honum árið 1998 í Smáranum í Kópavogi. Þá var maður frekar stressaður yfir því að mæta á æfingar. Það var gaman af því. Ég hlakka til að sjá hvað hann ætlar að gera með okkur. Það er hans að miðla því til okkar og þetta verður örugglega gaman.

„Við erum að byrja á núlli og þurfum allir að stefna upp á við. Það skiptir máli núna. Ekki það sem gerðist heldur að menn byrji með hreint borð og horfi fram á veginn,“ segir Guðjón Valur Sigurðsson.

Geir á æfingunni í kvöld.vísir/vilhelm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×