Viðskipti erlent

Stóri samruninn blásinn af

Sæunn Gísladóttir skrifar
Samningurinn var metinn á 19.800 milljarða króna.
Samningurinn var metinn á 19.800 milljarða króna. vísir/Getty
Ekki verður af áformuðum samruna lyfjaframleiðandanna Pfizer og Allergan. Ástæða þess er ný lagasetning í Bandaríkjunum sem tilkynnt var um á mánudag.

Samruninn var metinn á 160 milljarða dollara, jafnvirði 19.800 milljarða íslenskra króna. Pfizer mun greiða Allergan 150 milljón dollara, 18,6 milljarða íslenskra króna, vegna kostnaðar sem fyrirtækið lagði út í vegna samrunans.

Nýju lögin í Bandaríkjunum voru skref í átt að því að koma í veg fyrir að fyrirtæki forðuðust skattgreiðslur í Bandaríkjunum með því að færa höfuðstöðvar sínar. Pfizer ætlaði að flytja höfuðstöðvar sínar til Írlands, þar sem Allergan er með höfuðstöðvar, og greiða einungis 12,5 prósenta fyrirtækjaskatt sem er mun lægri en fyrirtækjaskattur í Bandaríkjunum.

Mörg bandarísk fyrirtæki hafa á undanförnum árum sent evrópskum fyrirtækjum tilboð um yfirtöku til þess að forðast skatta í Bandaríkjunum.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 7. apríl.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×