Körfubolti

Verða nú að vinna á heimavelli

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Logi Gunnarsson og Brynjar Björnsson eigast við í 1.  leiknum.
Logi Gunnarsson og Brynjar Björnsson eigast við í 1. leiknum. Fréttablaðið/Ernir
Njarðvík og KR mætast öðru sinni í undanúrslitarimmu sinni í Dominos-deild karla í körfubolta í Ljónagryfjunni í kvöld en KR hafði sigur í fyrsta leiknum eftir rafmagnaðann og tvíframlengdan spennuleik.

Ef Njarðvíkingar halda áfram á sömu braut og þeir hafa verið í úrslitakeppninni í undanförnum 19 leikjum ættu þeir að vinna í kvöld, en Ljónin úr Njarðvík eru búnir að vinna og tapa til skiptis í úrslitaleikinni í 19 leikjum í röð. Ekki mikill stöðugleiki það.

Njarðvík tapaði í oddaleik fyrir KR í undanúrslitum á síðustu leiktíð í leik sem var einnig tvíframlengdur en alls hafa því verið fjórar framlengingar í síðustu tveimur leikjum liðanna í úrslitakeppni Dominos-deildarinnar.

Njarðvík byrjaði þessa úrslitakeppni á að vinna Stjörnuna á útivelli þar sem Garðbæingar voru með heimaleikjaréttinn í rimmu liðanna í átta liða úrslitunum en þar höfðu Njarðvíkingar sigur í öllum útileikjunum. Nú eru Njarðvíkingar búnir að tapa einu sinni á útivelli og verða að vinna á heimavelli ætli þeir að komast áfram í rimmunni.

Lítið var um sóknarleik í fyrsta leik liðanna sem endaði 53-53 eftir venjulegan leiktíma áður en þurfti að grípa til framlengingar og svo til annarrar framlengingar. Liðin hittu lítið sem ekkert og var varnarleikurinn til fyrirmyndar.

KR vann báða leiki liðanna á leiktíðinni og er nú búið að vinna einn í úrslitakeppninni. Leikur liðanna í Ljónagryfjunni í deildarkeppninni var jafn og spennandi alveg þar til undir lokin þegar KR stakk af með frábærri spilamennsku og má búast við annarri eins spennu þegar liðin mætast í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×