Körfubolti

Mobley: Kára engin takmörk sett

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kári Jónsson, leikmaður Hauka, hefur verið ein af stjörnum úrslitakeppninnar en hann var í lykilhlutverki í rimmu liðsins gegn Tindastóli í undanúrslitum úrslitakeppni Domino's-deildar karla.

Kári setti niður tvö vítaskot á ögurstundu á Sauðárkróki í gær þegar Haukar tryggðu sig áfram í lokaúrslitin með naumum sigri.

Brandon Mobley var í viðtali í Körfuboltakvöldi eftir leikinn í gær og var spurður um möguleika Kára í Bandaríkjunum, þar sem hann mun líklega hefja nám í haust.

„Hann þyrfti að bæta aðeins á sig en það er ekki nokkur vafi,“ sagði Mobley um liðsfélaga sinn unga.

„Honum eru engin takmörk sett. Málið er með evrópsku leikmennina er þegar þeir koma í bandarísku háskólana þá búa þeir yfir þeirri reynslu að hafa æft með og spilað við eldri og reyndari leikmenn,“ sagði hann enn fremur.

„Kári hefur reynslu sem atvinnumaður í íþróttinni að því leyti. Hann mun hafa ákveðið forskot þegar kemur að því að spila við 18-19 ára leikmenn í bandarísku háskólunum.“

Hann segir að til þess að ná langt í Bandaríkjunum þarf hann að vinna í fleiri þáttum í sínum leik en bara að skora.

„Öll lið eru með menn sem geta skorað fullt af stigum. Ég segir honum að allir vita að hann geti skorað en það þarf að hlúa að öðru, eins og til dæmis varnarvinnunni, sendingagetu og fráköstunum. Ef hann gerir það verða honum engin takmörk sett.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×