Handbolti

Guðjón Valur komst ekki í úrvalslið Meistaradeildarinnar | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. Vísir/Getty
Íslenski landsliðsfyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson var ekki valinn í úrvalslið Meistaradeildarinnar á þessu tímabili en evrópska handboltasambandið tilkynnti niðurstöður kosningarinnar á heimasíðu sinni.

Guðjón Valur var eini íslenski leikmaðurinn sem var tilnefndur en hann var einn af fimm sem kom til greina í vinstra horninu í úrvalsliðinu.

Guðjón Valur og félagar í Barcelona unnu Meistaradeildina í fyrra en komust ekki í ár í hóp þeirra fjögurra sem taka þátt í úrslitahelginni sem fer fram um Köln um helgina.

80 þúsund atkvæða bárust í kosningunni á heimasíðu evrópska handboltasambandsins sem er nær tvöfalt meira en í fyrra. Þetta er fjórða árið í röð sem úrvalsliðið er valið á þennan hátt.

Þeir sem voru tilnefndir í vinstra gornið voru auk okkar manns þeir Timur Dibirov hjá HC Vardar, Uwe Gensheimer hjá Rhein-Neckar Löwen, Manuel Strlek hjá KS Vive Tauron Kielce og Jonas Källman hjá MOL-Pick Szeged.

Króatinn Manuel Strlek var valinn í liðið og Svíinn Jonas Källman varð í öðru sæti.

Leikmenn frá löndum fyrrum Júgóslavíu komu áberandi best út úr kosningunni en þar voru efstir á blaði þrír Serbar, tveir Slóvenar, einn Króati og einn Makedóníumaður. Það er hægt að sjá allt liðið hér fyrir neðan.

Úrvalslið Meistaradeildarinnar 2015/16 (81,476 atkvæði):

Markvörður: Niklas Landin, Danmörku (THW Kiel) 27.18%

Vinstra horn: Manuel Strlek, Króatíu (KS Vive Tauron Kielce) 22.71%

Vinstri skytta: Momir Ilic, Serbíu (MVM Veszprém) 25.16%

Leikstjórnandi: Dean Bombac, Slóveníu (MOL-Pick Szeged) 24.61%

Línumaður: Rastko Stojkovic, Serbíu (HC Meshkov Brest) 55.94%

Hægri skytta: Kiril Lazarov, Makedóníu (FC Barcelona Lassa) 25.54%

Hægra horn: Gasper Marguc, Slóveníu (MVM Veszprém) 25.16%

Varnarmaður: Timuzsin Schuch, Ungverjalandi (MVM Veszprém) 27.65%

Ungur leikmaður: Darko Djukic, Serbíu (Besiktas JK) 40.01%

Þjálfari: Javier Sabate, Spáni (MVM Veszprém) 27.28%

 

Hér fyrir neðan má sjá myndband með úrvalsliði Meistaradeildarinnar 2015-16.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×