Körfubolti

Kristinn Marinósson farinn frá Haukum til ÍR

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kristinn Marinósson rífur í spaðann á Kristjáni Pétri Andréssyni, formanni KKD ÍR.
Kristinn Marinósson rífur í spaðann á Kristjáni Pétri Andréssyni, formanni KKD ÍR. mynd/ÍR
Lið ÍR í Dominos-deild karla í körfubolta fékk heldur betur góðan liðsstyrk í dag þegar framherjinn Kristinn Marinósson samdi við Breiðhyltinga til tveggja ára.

Kristinn spilaði stóra rullu með Haukum á síðasta tímabili er liðið komst alla leið í úrslitaeinvígið gegn KR. Hann spilaði 34 leiki og skoraði að meðaltali 6,1 stig og tók 4,4 fráköst á þeim 18 mínútum sem hann spilaði í leik.

Kristinn var sjötti maður Haukanna sá síðustu leiktíð en skilaði ávallt góðu verki þegar hann kom inn á. Þá er hann fín skytta en hann var með 30 prósent nýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna á síðasta tímabili og 45 prósent í teignum.

Kristinn Marinósson er farinn frá uppeldisfélaginu.vísir/vilhelm
ÍR-ingar, sem hafa undanfarin fimm tímabil hafnað í níunda eða tíunda sæti, eru heldur betur að blása í herlúðra eftir að vera sakaðir um „þvílík djöfulsins meðalmennsku“ af Jóni Halldóri Eðvaldssyni, einum sérfræðinga Dominos-Körfuboltakvölds, undir lok síðasta tímabils.

„Með allri virðingu fyrir ÍR sem er búið að vera til mjög lengi þá er bara þvílík djöfulsins meðalmennska í gangi þarna. Það er viðbjóðslegt að horfa á þetta,“ sagði hann í hinum gríðarlega vinsæla lið Framlengingu í þættinum 8. mars.

ÍR er nú þegar búið að fá til sín Stefán Karel Torfason frá Snæfell sem er einn besti miðherji deildarinnar og þá er leikstjórnandinn magnaði Matthías Orri Sigurðarson kominn aftur í Breiðholtið.

Hér að neðan má sjá þegar Jón Halldór tók ÍR-inga í gegn en umræðan hefst eftir 2 mínútur og 40 sekúndur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×