Handbolti

Guðjón Valur markahæstur í sigri meistaranna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðjón Valur skoraði sex mörk úr sjö skotum.
Guðjón Valur skoraði sex mörk úr sjö skotum. vísir/getty
Rhein-Neckar Löwen rúllaði yfir Magdeburg, 29-20, í 1. umferð þýsku úrvalsdeildarinnar í handbolta í dag.

Þessi sömu lið mættust í leiknum um þýska Ofurbikarinn á miðvikudaginn þar sem Löwen hafði einnig betur, 27-24.

Ljónin frá Mannheim byrjuðu leikinn af miklum krafti og eftir fimm mínútur var staðan orðin 4-0.

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði tvö þessara marka en hann gerði alls sex mörk úr sjö skotum í leiknum og var markahæstur í liði Löwen. Alexander Petersson stóð einnig fyrir sínu og skoraði þrjú mörk úr fimm skotum.

Heimamenn leiddu með sex mörkum í hálfleik, 14-8, og gengu svo nánast frá leiknum með því að skora fyrstu tvö mörkin í seinni hálfleik.

Löwen náði mest 11 marka forystu, 29-18, en Magdeburg lagaði stöðuna með því að skora tvö síðustu mörk leiksins.

Guðjón Valur var sem áður sagði markahæstur í liði þýsku meistaranna en Svisslendingurinn Andy Schmid kom næstur með fimm mörk. Þá átti Svíinn Mikael Appelgren frábæran leik í marki Löwen og varði 16 skot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×