Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Þór Ak. - Haukar 96-93 | Þórssigur í framlengdum leik

Arnar Geir Halldórsson í Höllinni og Akureyri skrifa
Tryggvi Snær Hlinason skoraði 11 stig og tók átta fráköst í leiknum.
Tryggvi Snær Hlinason skoraði 11 stig og tók átta fráköst í leiknum. vísir/stefán
Þór Ak. vann sinn annan leik í röð í Domino's deild karla þegar liðið lagði Hauka að velli, 96-93, eftir framlengdan leik í Höllinni á Akureyri í kvöld.

Sherrod Wright, sem lék sinn fyrsta leik fyrir Hauka í kvöld, jafnaði metin, 77-77, með tveimur vítaskotum þegar ein sekúnda var eftir af venjulegum leiktíma.

Í framlengingunni reyndust heimamenn svo sterkari, skoruðu 19 stig gegn 16 stigum gestanna frá Hafnarfirði.

Jalen Ross var stigahæstur í liði Þórs með 25 stig. Darrel Lewis og Danero Thomas skoruðu báðir 19 stig en sá síðarnefndi tók einnig 17 fráköst.

Wright og Kristján Leifur Sverrisson skoruðu 23 stig hvor fyrir Hauka sem hafa tapað fjórum leikjum í röð.

Af hverju vann Þór?

Þórsarar byrjuðu leikinn frábærlega og virtust staðráðnir í að ná í sinn fyrsta heimasigur á meðan Haukar mættu ekki til leiks fyrr en seint í öðrum leikhluta. Þá fór hinsvegar allt í baklás hjá heimamönnum og í þriðja leikhluta gengu gestirnir á lagið. Haukar náðu mest sex stiga forystu en Þórsarar rifu sig aftur upp í fjórða leikhluta. Þá skiptust liðin á forystunni og neituðu bæði að gefast upp.

Þórsarar voru hinsvegar mun öflugri í framlengingunni þrátt fyrir að leika án sín stigahæsta manns, Jalen Riley, þar sem hann fékk sína fimmtu villa undir lok venjulegs leiktíma. Í framlengingunni munaði mikið um þá Darrel Lewis og Danero Thomas sem tóku völdin í sínar hendur og sigldu sigrinum heim.

Bestu menn vallarins

Það er erfitt að taka einhvern út hjá sigurliðinu. Danero Thomas var afar nálægt tröllatvennu, skoraði 19 stig og tók 17 fráköst. Skotnýting hans var hinsvegar alls ekki góð en á móti kemur að hann var frábær í framlengingunni. Gamla brýnið Darrel Lewis var að skjóta afar vel og steig upp á mikilvægum augnablikum. Þá átti ungstirnið Tryggvi Snær Hlinason góðan leik framan af en minna bar á honum eftir því sem leið á leikinn.

Hjá Haukum stendur frammistaða Kristjáns Leifs Sverrissonar upp úr. Hann skoraði 23 stig og tók 11 fráköst, þar af fjögur sóknarfráköst. Sherrod Wright var mjög lengi í gang en sýndi hvað hann getur í síðari hálfleiknum og skilaði að lokum 23 stigum.

Tölfræðin sem vakti athygli

Darrel Lewis í fyrri hálfleik. Gamli maðurinn byrjaði leikinn frábærlega og setti niður öll sex skot sín í fyrri hálfleiknum. Þrír leikmenn ná tvennu. Danero Thomas (19 stig og 17 fráköst), Kristján Leifur Sverrisson (23 stig og 11 fráköst) og leikstjórnandinn knái Emil Barja (15 stig og 10 fráköst). Emil vantaði aðeins tvær stoðsendingar upp á að ná þrefaldri tvennu.

Hvað gekk illa?

Sherrod Wright gekk skelfilega að skora sína fyrstu körfu en hann var með þrjú stig í hálfleik, öll af vítalínunni. Hann sýndi hinsvegar hvers megnugur hann er í síðari hálfleiknum.

Ragnar Helgi Friðriksson átti í miklum vandræðum með skotin sín í kvöld en þrátt fyrir að spila rúmar 30 mínútur skoraði hann fyrstu körfuna sína í framlengingunni. Sú karfa var hinsvegar afar mikilvæg.

Tölfræði leiks:

Þór Ak.-Haukar 96-93 (21-14, 22-21, 11-20, 23-22, 19-16)

Þór Ak.:
Jalen Ross Riley 25/6 fráköst, Danero Thomas 19/17 fráköst, Darrel Keith Lewis 19/4 fráköst, Tryggvi Snær Hlinason 11/8 fráköst, Ingvi Rafn Ingvarsson 10, Þröstur Leó Jóhannsson 7, Ragnar Helgi Friðriksson 5/7 stoðsendingar.

Haukar:
Sherrod Nigel Wright 23/6 fráköst, Kristján Leifur Sverrisson 23/11 fráköst, Haukur Óskarsson 17, Emil Barja 15/10 fráköst/8 stoðsendingar, Hjálmar Stefánsson 8/9 fráköst, Finnur Atli Magnússon 5/8 fráköst, Breki Gylfason 2.

Benedikt: Erum að nálgast þann stað sem við viljum vera á

Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs, var enn að ná sér niður eftir dramatíkina þegar blaðamaður tók hann tali eftir leik. Benedikt var að vonum ánægður með að ná sigrinum en hvað var það sem skilaði þessum sigri?

„Ég held að það hafi verið sigurviljinn hjá okkur. Við náðum að kreista út sigurinn þrátt fyrir að hitta mjög illa í sókninni, bæði í vítum og öðrum skotum og við eigum helling inni þar. Við náum samt að vinna og það var bara viljinn í vörninni sem skilar því. Við náðum lykilstoppum sem redda þessu fyrir horn.

„Við endum fyrri hálfleik illa og byrjum seinni hálfleik illa. Það er það sama og gerist hjá okkur í Grindavík í síðasta leik og er eitthvað sem við verðum að skoða. Ég er ekki með svarið á reiðum höndum. Við þurfum bara að fara yfir þetta,“ segir Benedikt.

Þórsarar byrjuðu mótið á þrem tapleikjum en hafa nú unnið tvo leiki í röð.

„Við erum að nálgast þann stað sem við viljum vera á en það er ekkert gefið í þessu. Þú getur unnið fimm í röð og tapað fimm í röð í þessari deild. Þú þarft að vera klár í hvern einasta leik, sama gegn hverjum það er.  Það er ekkert sjálfgefið. Maður er búinn að vera það lengi í þessu að maður hefur séð allt og upplifað allt. Maður reynir bara að undirbúa liðið fyrir hvern einasta leik,“ segir Benedikt sem var ánægður að ná í fyrsta heimasigurinn.

„Það er lykilatriði að eiga góðan heimavöll. Þú þarft að taka ansi marga sigra á heimavelli ef þú ætlar að gera eitthvað í þessari deild. Við erum búnir að spila þrjá heimaleiki og tveir þeirra farið í framlengingu svo við erum að fá hörkuleiki hérna. Núna vorum við loksins töffararnir í lokin og kláruðum þetta þrátt fyrir að hafa gert okkur erfitt fyrir á köflum.“

Ívar: Mjög ósáttur við dómarana

Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, var ómyrkur í máli eftir þetta dramatíska tap.

„Ég er óánægður með að tapa. Mér fannst við eiga að klára leikinn í fjórða leikhluta. Við vorum komnir í bónusrétt snemma og ákváðum því að sækja mikið á körfuna, sem við gerðum en við fengum ekki neitt. Við fáum samt galopin skot í fjórða leikhluta til að gera út um leikinn en við bara hittum ekki. Finnur var galopinn en þetta var ekki hans dagur í skotum.

„Við byrjum leikinn skelfilega og vorum hrikalega slakir en seinni hálfleikur var fínn og Haukur (Óskarsson) kom sterkur inn. Okkur vantaði bara að setja skotin niður í fjórða og klára leikinn. Ég vil óska Þórsurum til hamingju með sigurinn. Þeir börðust vel og gerðu góða hluti,“ segir Ívar.

Þetta var fjórða tap Hauka í röð og viðurkennir Ívar að það sé áhyggjuefni. Hann var einnig afar ósáttur með dómara leiksins og fannst halla á sitt lið undir lok leiksins.

„Já það er auðvitað ástæða til að hafa áhyggjur af genginu. Það var hinsvegar margt jákvætt í seinni hálfleiknum og nú þurfum við bara að byggja á því sem við gerðum vel þar og þá kemur þetta hægt og bítandi.

„Við fengum ekki mikið frá dómurunum í fjórða leikhluta og Þórsarar voru stöðugt á línunni þrátt fyrir nákvæmlega sömu vörn báðum megin en við fengum ekkert. Ég var mjög ósáttur við dómarana í þessum leik. Þeir fengu villur sem við fengum ekki og það skiptir máli.“

Haukar skiptu um Bandaríkjamann á dögunum og var Sherrod Wright að leika sinn fyrsta leik fyrir Hauka. Ívar er sannfærður um að hann eigi eftir að eflast eftir því sem á líður.

„Hann kom bara í gær og er bara búinn að vera á einni æfingu með okkur. Við vorum stirðir í fyrri hálfleik og vorum að bíða eftir að hann gerði hlutina. Hann er að læra á strákana í kringum sig,“ segir Ívar.

Þröstur Leó: Baráttan skilaði þessum sigri

Þröstur Leó Jóhannsson, fyrirliði Þórs, var sigurreifur í leikslok og hrósaði liðsfélögum sínum fyrir góðan karakter.

„Baráttan skilaði þessum sigri, bara í einu og öllu. Við vorum ekki að hitta úr skotum og þeir tóku sóknarfráköst í gríð og erg. Viljinn og baráttan skilaði okkur því að við vorum inn í leiknum allan tímann og svo vorum við með aðeins betur stilltan haus í lokin,“ segir Þröstur Leó.

Hann segir liðið vera á réttri leið eftir að hafa byrjað mótið illa

„Við erum á réttu róli í þróun okkar leiks. Við erum búnir að finna svör við ýmsum atriðum sem gengu illa í byrjun af því að við vorum ekki búnir að púsla okkur saman. Við erum orðnir aðeins heilsteyptari.

„Það er lykilatriði að ná í fyrsta heimasigurinn. Við þurfum að gera þetta að vígi og við ætlum að gera það. Við ætlum að vera brjálaðir þegar lið koma hingað norður,“ segir fyririliðinn.

Þetta var í annað skiptið sem Þórsarar fara í framlengingu á þessari leiktíð en Þröstur segir menn ekki hafa verið hrædda um að tapa öðrum framlengdum leik.

„Nei. Það rann strax upp fyrir okkur að við værum lentir aftur í þessu og maður sá strax á okkur að við myndum taka þetta í framlengingunni. Við ætluðum ekki að verða undir í þetta skiptið. Við vorum með yfirhöndina alla framlenginguna og kláruðum þetta,“ segir Þröstur Leó.

Bein lýsing: Þór Ak. - Haukar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×