Handbolti

Geir markahæstur í fyrsta tapi Cesson-Rennes í rúman mánuð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Geir skoraði fimm mörk úr níu skotum.
Geir skoraði fimm mörk úr níu skotum. vísir/getty
Cesson-Rennes tapaði sínum fyrsta leik í rúman mánuð þegar liðið mætti Nantes í frönsku úrvalsdeildinni í kvöld. Lokatölur 29-25, Nantes í vil.

Geir Guðmundsson var markahæstur í liði Cesson-Rennes í kvöld með fimm mörk. Frændi hans, Guðmundur Hólmar Helgason, komst ekki á blað en fékk eina tveggja mínútna brottvísun.

Geir hefur skorað 21 mark í fyrstu átta leikjum tímabilsins, eða 2,63 mörk að meðaltali í leik. Guðmundur Hólmar er með eitt mark að meðaltali í leik.

Cesson-Rennes var allan tímann í eltingarleik í kvöld. Eftir korter var Nantes komið sex mörkum yfir, 8-2, og það forskot létu heimamenn ekki af hendi.

Cesson-Rennes náði góðu áhlaupi í seinni hálfleik og minnkaði muninn í eitt mark, 23-22, þegar tíu mínútur voru eftir. Þá gáfu Nantes-menn aftur í, skoruðu sex af síðustu níu mörkum leiksins og tryggðu sér stigin tvö.

Cesson-Rennes er í 9. sæti deildarinnar með sjö stig.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×