Handbolti

Sigrar hjá Íslendingaliðunum | Sigvaldi markahæstur

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sigvaldi í leik með Århus.
Sigvaldi í leik með Århus. vísir/heimasíða Århus
Íslendingaliðin Århus og Álaborg unnu bæði leiki sína í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag, en bæði lið lentu í hörkuleikjum í dag.

Århus mætti TM Tønder Håndbold á heimavelli í dag, en Århus leiddi með fimm mörkum í hálfleik, 17-12. Í síðari hálfleik jafnaðist leikurinn, en Århus fór með sigur af hólmi að lokum, 33-29.

Sigvaldi Guðjónsson skoraði sex mörk fyrir Århus, Ómar Ingi Magnússon skoraði þrjú mörk og Róbert Gunnarsson skoraði tvö. Århus er í áttunda til tíunda sæti deildarinnar með 14 stig.

Álaborg, undir stjórn Arons Kristjánssonar, vann mikilvægan sigur á Skanderborg á heimavelli, 24-22, eftir að hafa verið tveimur mörkum undir í hálfleik, 13-11.

Stefán Rafn Sigurmannsson skoraði fjögur mörk fyrir Álaborg, þar af tvö úr vítum, en Arnór Atlason er enn að glíma við meiðsli.

Álaborg er með fjögurra stiga forskot á toppi dönsku úrvalsdeildarinnar, en Bjerringbro-Silkeborg er í öðru sætinu. Þeir eiga leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×