Handbolti

Draumafélagið búið að bjóða í Aron

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron í leik gegn Barcelona í Meistaradeild Evrópu.
Aron í leik gegn Barcelona í Meistaradeild Evrópu. vísir/epa
Landsliðsmaðurinn Aron Pálmarsson er með tilboð frá Barcelona í höndunum. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Aron leikur með ungverska meistaraliðinu Veszprém og hefur gert frá því í fyrra. Veszprém vill halda íslenska landsliðsmanninum en önnur stórlið hafa einnig sýnt honum áhuga. Kiel, hans gamla lið, Paris Saint-Germain og Barcelona hafa borið víurnar í hinn 26 ára gamla Aron.

„Ég held að ég hafi sagt í fyrsta viðtalinu mínu þegar ég var 15 ára gamall að draumafélagið væri Barcelona. Auðvitað er það hrikalega spennandi og mig hefur alltaf langað til þess að spila þar. Svo ég er upp með mér að þeir skuli sýna mér áhuga,“ sagði Aron í samtali við Morgunblaðið.

„Ég er bara að velta því fyrir mér hvað ég eigi að gera. Ég mun gefa mér góðan tíma og ígrunda það gríðarlega vel hvar ég mun spila á næstu árum. Þetta er örugglega stærsta ákvörðun sem ég hef tekið,“ bætti landsliðsmaðurinn við. Samningur hans við Veszprém rennur út eftir næsta tímabil.

Tveir íslenskir handboltamenn hafa leikið með Barcelona; þeir Viggó Sigurðsson og Guðjón Valur Sigurðsson. Sá síðarnefndi yfirgaf Barcelona í sumar eftir tveggja ára dvöl þar.

Barcelona er með gríðarlega yfirburði á Spáni en liðið hefur unnið yfir 100 deildarleiki í röð heima fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×