Handbolti

Bjarki með tvö mörk í sigri | Ljónin töpuðu mikilvægum stigum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Bjarki Már í leik með Berlín.
Bjarki Már í leik með Berlín. vísir/getty
Bjarki Már Elísson var í sigurliði í þýska handboltanum þegar Bjarki og félagar í Füchse Berlín unnu HSC 200 Coburg, 29-23.

Sigurinn var nánast aldrei í hættu, en Füchse leiddu í hálfleik með fjórum mörkum, 16-12. Þeir héldu svo vel á spilunum í síðari hálfleik og unnu að lokum með sex mörkum, 29-23.

Bjarki Már skoraði tvö mörk í leiknum, en þeir Kresimir Kozina og Mattias Zachrisson skoruðu báðir fimm mörk hvor. Refirnir eru í fjórða sætinu með 28 stig.

Rhein-Neckar Löwen tapaði mikilvægum stigum í toppbaráttunni þegar Ljónin töpuðu á útivelli gegn Magdeburg með þriggja marka mun, 35-32.

Mikið var skorað í leiknum og staðan var 20-15 þegar liðin gengu til búningsherbergja. Magdeburg náði alltaf að halda Löwen í hæfilegri fjarlægð og lokatölur 35-32.

Christian O'Sullivan var markahæstur hjá Magdeburg með sjö mörk, en Alexander Petersson skoraði fjögur mörk fyrir Löwen. Guðjón Valur Sigurðsson komst ekki á blað.

Löwen er jafnt Flensburg á toppnum, en Flensburg á leik til góða gegn Melsungen á morgun. Kiel er svo tveimur stigum frá Löwen, en Kiel spilar við Bergrischer á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×