Körfubolti

Bróðir hans birtist óvænt og mörg tár féllu í salnum | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Matt Farrell trúir því varla þegar hann sér bróður sinn.
Matt Farrell trúir því varla þegar hann sér bróður sinn. Vísir/AP
Körfuboltastrákurinn Matt Farrell fékk óvænta en um leið skemmtilega jólagjöf eftir leik í bandaríska háskólaboltanum í gær.

Matt Farrell og félagar í skólaliði Notre Dame unnu þá 77–62 sigur á Colgate skólanum þar sem Farrell var með 13 stig, 7 stoðsendingar og 2 stolna bolta.

Eftir leikinn voru Farrell og félagar að fagna sigri þegar myndband með bróður Matt kom upp á stóra skjáinn.

Eldri bróðir hans, Robert Farrell III, er hermaður og átti að vera í Afganistan þangað til í febrúar. Hann virtist vera að senda bróður sínum kveðju frá Afganistan en var í raun bara í næsta herbergi.

Það var magnað að sjá viðbrögð Matt Farrell þegar stóri bróðir hans gekk síðan inn í salinn. Það voru varla þurr augu í húsinu þegar bræðurnir föðmuðust á ný.

Hér fyrir neðan má sjá myndband af þessari skemmtilegu stund en eins og allir vita þá kunna bandaríkjamenn þjóða best að búa til alvöru dramatík og hlýja okkur um hjartaræturnar um jólin.















Matt Farrell er á sínu þriðja ári með Notre Dame skólanum en er í raun að fá sitt fyrsta alvöru tækifæri í vetur. Hann hefur gripið það með báðum höndum og er nú lykilmaður liðsins.

Hann spilaði í 13,4 mínútur að meðaltali í leik á sínu öðru ári og aðeins í 4,1 mínútu í leik á nýliðaárinu. Í vetur hefur Farrell aftur á móti spilað í 31,1 mínútu að meðaltali.

Farrell hefur hitt úr öllum 27 vítum sínum og er með 13,8 stig og 6,0 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Bræðurnir saman.Vísir/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×