Handbolti

Ólafur Guðmundsson alveg bensínlaus eftir HM | Kristianstad tapaði stórt í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Guðmundsson í leik á HM.
Ólafur Guðmundsson í leik á HM. Vísir/EPA
Íslenski landsliðsmaðurinn Ólafur Guðmundsson var markalaus í kvöld þegar lið hans IFK Kristianstad steinlá á útivelli á móti Redbergslids IK í sænsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Gunnar Steinsson Jónsson skoraði fjögur mörk fyrir Kristianstad og var einn af markahæstu mönnum liðsins. Gunnar Steinn nýtti 4 af 7 skotum sínum og var einnig með tvær stoðsendingar. Arnar Freyr Arnarsson skoraði tvö mörk úr tveimur skotum.

Ólafur Guðmundson var í stóru hlutverki hjá íslenska landsliðinu á HM í Frakklandi og kemur greinilega alveg bensínlaus til baka til síns. Ólafur klikkaði á öllum fjórum skotum sínum og var með mínus framlag í tölfræði sænska sambandsins.

Ólafur skoraði aðeins 1 mark úr 5 skotum í fyrsta leiknum eftir HM og hefur þar með klikkað á 8 af 9 skotum sínum í þessum tveimur fyrstu leikjum eftir að heimsmeistaramótinu lauk.

Kristianstad átti möguleika á því að ná efstu sætinu í fyrsta leik eftir HM-frí en tapaði þá með sex mörkum á móti HK Aranäs sem er eitt af neðstu liðum deildarinnar.

Ekki náðu liðsmenn Kristianstad að rífa sig upp í kvöld og niðurstaðan var tíu marka tap á móti Redbergslid, 31-21, sem var tveimur sætum neðar í töflunni fyrir leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×