Handbolti

Guðjón Valur stoltur af Ljónunum sem létu ekki bjóða sér bullið hjá EHF

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson og Alexander Petersson fara líklega ekki áfram í Meistaradeildinni.
Guðjón Valur Sigurðsson og Alexander Petersson fara líklega ekki áfram í Meistaradeildinni. vísir/getty
Þýskalandsmeistarar Rhein-Neckar Löwen munu senda varaliðið sitt í fyrri leikinn á móti Evrópumeisturum Kielce frá Póllandi í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar þar sem rígurinn á milli evrópska handknattleikssambandsins og þess þýska heldur áfram.

Staðan er þannig að Ljónin þurfa að spila stórleik á móti Alfreð Gíslasyni og lærisveinum hans í Kiel 25. mars klukkan tíu mínútur yfir sex að þýskum tíma en klukkan fjögur sama dag á Löwen að vera í Póllandi. Það gengur augljóslega ekki upp.

Fyrr á leiktíðinni þurftu þýsku meistararnir að spila heimaleik gegn Leipzig í deildinni og svo Meistaradeildarleik á útivelli gegn stórliði Barcelona en vandræðin á milli EHF og þýska sambandsins eru mikil.

Valdabaráttan er í algleymingi og stefnir í að aðeins eitt þýskt lið verði í Meistaradeildinni á næstu leiktíð þar sem evrópska sambandið hefur engan áhuga á að vinna með því þýska og finna leikdaga í kringum þessa sterkustu deild heims.

Skaðar íþróttina

Forsvarsmenn Rhein-Neckar Löwen tóku þá ákvörðun í gær að láta ekki bjóða sér þetta bull og ætla að senda varaliðið til leiks á móti Kielce en óhætt er að segja að þar með eru möguleika þess á að komast áfram úr sögunni.

„Félagið okkar hefur barist hart gegn þessari stöðu og við munum ekki gefa heimaleikinn okkar eins og við höfum verið beðin um,“ segir Jennifer Ketteman, framkvæmdastjóri Löwen, en lausn EHF var að liðin mundu skipta á heimaleikjum.

„Við erum búin að lofa okkur í þennan leik á móti Kiel sem verður sýndur beint á ARD og á Sky og við ætlum að standa við orð okkar. Persónulega vonaðist ég til þess að það sem gerðist fyrr í vetur myndi opna augu EHF en sú er ekki raunin. Þetta skaðar íþróttina okkar og við hörmum þessa valdabaráttu,“ segir Ketteman.

Ljóst er að Ljónin njóta fulls stuðnings leikmanna liðsins en íslenski landsliðsfyrirliðinn, Guðjón Valur Sigurðsson, sem er ekki bara ein skærasta stjarna Löwen heldur handboltaheimsins, styður ákvörðun sinna manna.

„Ég hef alltaf gert allt fyrir mitt félag, sama hvaða treyju ég hef klæðst. Í dag er ég sérstaklega stoltur af því að vera hluti af Rhein-Neckar Löwen. Sambönd og forráðamenn eiga aldrei að vera stærri en íþróttin okkar og íþróttamennirnir. Við stigum niður fæti fyrir handboltann og handboltamenn í dag,“ segir hann í Instagram-færslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×