Lífið

Plataði vinnufélagana með gervihákarli eftir Íslandsför: „Eitt það hræðilegasta sem ég hef borðað“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Menn voru mistilbúnir í það að smakka „hákarlinn“
Menn voru mistilbúnir í það að smakka „hákarlinn“ Vísir
Sjónvarpskonan Karli Ritter frá Fox 4 News í Kansas í Bandaríkjunum var stödd hér á landi nýlega til þess að kanna matarmenningu Íslendinga. Þegar heim var komið plataði hún vinnufélaga sína til að borða hákarl sem reyndist svo ekki vera hákarl.

Ritter fór um víðan völl og borðaði meðal annars á Fiskmarkaðaninum sem og í Bláa lóninu. Hún hóf þá ferðina á að skella sér í Kolaportið þar sem hún prófaði hákarl. Hún virtist ekki hafa miklar skoðanir á hvernig hann bragðaðist en kvartaði þó síðar yfir því að hún gæti ekki losnað við bragðið af hákarlinum úr munninum.

Innslag hennar frá Íslandi var sýnt á sjónvarpstöðinni og þegar því var lokið ræddu hún og samstarfsfélagar hennar um innslagið. Dró Ritter þá fram hákarl í bitum og krafðist þess að þeir myndu smakka. Vinnufélagar hennar voru misáfjáðir í það en létu þó til leiðast. Voru þeir allir sammála um að hákarlinn væri ekkert svo slæmur.

Það var þá sem Ritter uppljóstraði um það að þetta væri ekki hákarl sem hún hafi komið með, hún hafi bara stoppað á sushi-veitingastað á leiðina í vinnuna og keypt eitthvað sem líktist hákarli til þess að plata vinnufélagana. Spurðu þeir hana þá hvernig hákarlinn bragðaðist í alvöru.

„Þetta er eitt það hræðilegasta sem ég hef borðað,“ svaraði hún um hæl en innslagið allt og „hákarla-smökkunina“ má sjá hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×