Sport

Stefnir á toppinn með hjálp fjölskyldunnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslendingar eignuðust nýtt silfurlið um síðustu helgi þegar karlalandsliðið í handbolta endaði í 2. sæti á EM U-18 ára. Ísland átti besta leikmann mótsins; Hauk Þrastarson. Hann kemur úr mikilli handboltafjölskyldu á Selfossi.
Íslendingar eignuðust nýtt silfurlið um síðustu helgi þegar karlalandsliðið í handbolta endaði í 2. sæti á EM U-18 ára. Ísland átti besta leikmann mótsins; Hauk Þrastarson. Hann kemur úr mikilli handboltafjölskyldu á Selfossi.
Fyrir ári voru ekki margir sem kunnu deili á Hauki Þrastarsyni, fyrir utan sveitunga hans á Selfossi og eldheita handboltaáhugamenn. Nú er staðan önnur. Haukur kom nánast fullskapaður inn í lið Selfyssinga á síðasta tímabili og var einn besti leikmaður Olís-deildarinnar. Selfoss komst í undanúrslit Íslandsmótsins og bikarkeppninnar og Haukur var valinn efnilegasti leikmaður Olís-deildarinnar á lokahófi HSÍ.

Hann lék sína fyrstu A-landsleiki í apríl, rétt fyrir 17 ára afmælið. Og enn ein rósin í hnappagat Hauks bættist við á EM U-18 ára í Króatíu sem lauk um síðustu helgi. Ísland vann til silfurverðlauna á mótinu og Haukur var valinn besti leikmaður þess.

„Markmiðið var að vera á meðal átta efstu liða og tryggja okkur þannig inn á tvö næstu mót. Við vissum alveg hvað við gætum,“ segir Haukur þegar blaðamaður Fréttablaðsins sest niður með honum og fjölskyldu hans í eldhúsinu á heimili þeirra á Selfossi.

Það er óhætt að segja að það snúist allt um handbolta hjá fjölskyldunni. Haukur er yngstur fjögurra systkina. Elstur er Örn sem er að hefja sitt annað tímabil sem þjálfari kvennaliðs Selfoss. Næst kemur Hrafnhildur Hanna sem hefur verið einn besti leikmaður Olís-deildarinnar undanfarin ár, tvívegis orðið markadrottning hennar og leikið með A-landsliðinu. Næstyngst er svo Hulda Dís sem leikur einnig með Selfossi og á leiki að baki fyrir yngri landslið Íslands.

Ekki nóg með það heldur er kærasta Arnar, Perla Ruth Albertsdóttir, lykilleikmaður í liði Selfoss og landsliðskona. Og kærasta Hauks, Agnes Sigurðardóttir, leikur líka með Selfossi.

Alin upp í sundlauginni

„Það veitir okkur mikla ánægju að fylgjast með þeim. Það er mikilvægt fyrir krakka að hafa góðan stuðning heiman frá. Það minnkar brottfall úr íþróttum,“ segir móðirin Guðbjörg Hrefna Bjarnadóttir. Hún keppti í sundi á árum áður og hefur kennt ungbarnasund á Selfossi í tæp 30 ár.

„Þau eru uppalin í sundlauginni. Það er aðalstaðurinn. Haukur var sex vikna þegar hann byrjaði í ungbarnasundi. Það var sund á hverjum degi, markviss hreyfiþjálfun,“ segir Guðbjörg.

Hún og eiginmaður hennar, Þröstur Ingvarsson, voru í Varazdin í Króatíu á meðan á Evrópumótinu stóð og fylgdust með syni sínum og liðsfélögum hans komast alla leið í úrslit.

Ísland vann alla leiki sína í riðlakeppninni og tryggði sér svo sæti í undanúrslitum með sigri á Þýskalandi, 22-23, í fyrri leik sínum í milliriðli. Lykilmenn fengu hvíld í seinni leiknum í milliriðli þar sem Íslendingar töpuðu 27-33 fyrir Spánverjum. Það kom sér vel í undanúrslitunum þar sem Ísland vann heimalið Króatíu með fjögurra marka mun, 30-26. Haukur skoraði tíu mörk í leiknum.

Í úrslitaleiknum mætti Ísland Svíþjóð. Liðin mættust í riðlakeppninni þar sem Íslendingar fóru með sigur af hólmi, 24-29. Svíar náðu hins vegar fram hefndum í úrslitaleiknum. Þeir byrjuðu miklu betur og komust í 8-2. Íslendingar sóttu smám saman í sig veðrið og jöfnuðu fyrir hálfleik. Jafnt var á öllum tölum framan af seinni hálfleik en þegar um 20 mínútur voru eftir tóku Svíar fram úr og unnu á endanum fimm marka sigur, 32-27. Árangur íslenska liðsins var samt sem áður frábær og lofar góðu fyrir framhaldið. Haukur er samt ekki viss hvort árangurinn var framar vonum.

Haukur Þrastarson lék með íslenska A-landsliðinu í handbolta áður en hann fékk bílprófið. Fréttablaðið/Eyþór

Erum með topplið

„Ætli það ekki? Þetta var okkar fyrsta stórmót og árangurinn var frábær. En við erum með topplið í þessum árgangi og það er raunhæft að við séum í toppsætunum á þessum mótum,“ segir Haukur. „Þetta gekk vel og liðið spilaði frábærlega. Það var lykillinn að þessu. Það spiluðu allir vel á mótinu, nema kannski í úrslitaleiknum.“

 

Ágætis bónus

Haukur segist lítið hafa leitt hugann að því hvort hann yrði valinn besti leikmaður mótsins. „Ég var ekkert að spá í það. Þetta var bara ágætis bónus,“ segir hinn afar hógværi Haukur.

Frammistaða hans undanfarið ár hefur vakið athygli út fyrir landsteinana og stóru liðin í Evrópu hafa sýnt honum áhuga. Haukur er búinn að fá sér umboðsmann, Arnar Frey Theodórsson, sem er með kanónur eins og Aron Pálmarsson og Sander Sagosen á sínum snærum.

„Ég spái ekki mikið í þetta,“ segir Haukur um áhugann að utan. „Ég fæ að vita af því sem er í gangi en spái ekki meira í það. Ég stressa mig ekkert á þessu. Ég verð hérna, allavega á næsta tímabili. Umboðsmaðurinn minn sér um öll þessi mál. Ég fæ frið fyrir þessu. Hann kann þetta allt og ég er ánægður með að hann hjálpi mér í þessu.“

 

Draumur að fara á HM

Eins og áður sagði lék Haukur sína fyrstu leiki fyrir A-landsliðið fyrr á þessu ári. Hann leyfir sér að dreyma um að fara með á HM í byrjun næsta árs en veit jafnframt að tíminn er með honum í liði.

„Það væri draumur að komast á HM. En ég geri bara mitt besta hérna á Selfossi og svo kemur það í ljós,“ segir Haukur. En hvert stefnir hann og hversu langt getur hann komist í handboltanum?

„Vonandi alla leið. Draumurinn er að komast í þessa topp klúbba í stærstu deildunum. Vonandi kemst maður þangað,“ segir Haukur.

Selfoss hefur framleitt handboltamenn og -konur á færibandi undanfarin ár. Sú breyting hefur hins vegar orðið að Selfyssingar eru farnir að halda sínum leikmönnum lengur hjá félaginu. Í karlaliðinu, sem var í baráttu um alla titla á síðasta tímabili, voru allir nema einn aldir upp hjá Selfossi.

„Menn lögðu sig fram um það að halda leikmönnunum og búa til umgjörð til að halda þeim. Það skiptir miklu fyrir þessa krakka að fá þessa umgjörð því þau fá endalaust af tilboðum frá stóru liðunum,“ segir Guðbjörg.

 

Yngriflokkastarfið tekið í gegn

Barna- og unglingastarfið í handboltanum á Selfossi er afar öflugt og metnaðurinn þar er mikill. Síðustu tólf ár hefur handboltaakademía verið starfrækt í samstarfi við Fjölbrautaskóla Suðurlands.

„Fyrir um 15 árum var byrjað alveg frá byrjun og yngriflokkastarfið tekið í gegn. Stefnan er að vera með eins færa þjálfara og unnt er. Þeir vinna allir eftir sömu stefnu. Frá 2006 kom handboltaakademían inn í þetta í samstarfi við FSu. Það bjó til tengingu milli yngri flokkanna og meistaraflokkanna,“ segir Örn. Auk þess að þjálfa meistaraflokk kvenna er hann þjálfari í akademíunni ásamt Patreki Jóhannessyni, þjálfara meistaraflokks karla. Örn á heilmikið í árangri Hauks bróður síns en hann þjálfaði hann í mörg ár.

„Ég þjálfaði frá yngra ári í 6. flokki og þar til ég skilaði honum til Patreks í fyrra,“ segir Örn.

 

Ætla alla leið í vetur

Spennandi tímar eru fram undan hjá Selfossi. Eftir viku mætir karlaliðið Klaipeda Dragunas frá Litháen í 1. umferð EHF-bikarsins. Þetta er fyrsti Evrópuleikur Selfyssinga síðan 1994. Keppni í Olís-deildinni hefst svo um miðjan september. Haukur og félagar ætla að fara lengra í vetur en þeir gerðu í fyrra.

„Klárlega. Við vorum grátlega nærri því að vinna allar keppnir á síðasta tímabili og við erum ákveðnir í að fara alla leið núna,“ segir Haukur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×