Handbolti

Ellefu íslensk mörk í sigri Álaborgar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ómar í landsleik með Íslandi en hann hefur byrjað tímabilið frábærlega í Danmörku.
Ómar í landsleik með Íslandi en hann hefur byrjað tímabilið frábærlega í Danmörku. vísir/getty
Íslendingarnir í liði Álaborgar áttu góðan leik er liðið vann níu marka sigur, 31-22, á Mors-Thy í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og Mors-Thy var meðal annars tveimur mörkum yfir á tímapunkti. Sóknarleikur Álaborgar á þeim tímapunkti ekki góður.

Staðan var 17-15 fyrir Álaborg í hálfleik og þeir stigu heldur betur á bensíngjöfina í síðari hálfleik. 21-17 var staðan um miðjan síðari hálfleik en lokatölur urðu 31-22.

Ómar Ingi Magnússon skoraði sjö mörk úr átta skotum og gaf þrjár stoðsendingar. Hann var frábær en fyrir leikinn var ítarlegt viðtal við Ómar í danska sjónvarpinu og einnig rætt við Ólaf Stefánsson um Ómar.

Janus Daði Smárason byrjaði á tréverkinu en kom inn af bekknum og gerði vel. Hann skoraði þrjú mörk úr fjórum skotum en Álaborg er á toppi deildarinnar með tólf stig eftir sjö leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×