Lífið

Farsóttarhúsið í Þingholtunum falt

Andri Eysteinsson skrifar
Farsóttarhúsið var byggt á árunum 1882-1884.
Farsóttarhúsið var byggt á árunum 1882-1884. Vísir
Farsóttarhúsið, 563 fermetra einbýlishús við Þingholtsstræti 25 í miðbæ Reykjavíkur er nú til sölu.

Um er að ræða timburhús sem reist var af Sjúkrahúsfélagi Reykjavíkur á árunum 1882-84. Samkvæmt deiliskipulagi er heimilt að hafa allt að fjórar íbúðir í húsinu auk þess sem að heimild er fyrir því að byggja 186 fermetra hús á lóð við hlið hússins. Húsið þarfnast þó allsherjar standsetningar að innan.

Húsið hýsti á árum áður aðstöðu fyrir farsóttarsjúklinga og dregur það nafn af því. Farsóttarhúsið var eins og áður segir byggt á árunum 1882-1884 og er því elsta hús landsins sem byggt var sérstaklega sem spítali. Var í húsinu helsti spítali borgarinnar þar til að Landakotsspítali var byggður árið 1902.

Var húsið þá gert að íbúðarhúsnæði í nokkur ár þar til að heilbrigðisstarfsemi hófst að nýju árið 1920. Á síðari árum var húsið nýtt sem gistiskýli fyrir þá sem hvergi eiga höfði sínu að halla.

Heimilað er að skipta húsinu í fjórar íbúðir en óheimilt verður að reka þar gististarfsemi. Sama gildir um húsið sem heimilt er að reisa á lóðinni við hliðina. Heimild er fyrir tveggja hæða húsi með risi og kjallara sem nýta má sem íbúðarhús eða hreinlega atvinnustarfsemi, þó enga gististarfsemi. Þá mega íbúðir ekki verða fleiri en ein og verður húsið að Þingholtsstræti 25b.

Sjá má sölusíðu Farsóttarhússins hér

Heimilt er að byggja hús á lóðinni, Þingholtsstræti 25b





Fleiri fréttir

Sjá meira


×