Lífið

Stuðmenn koma fram á Rökkvunni á Garðatorgi

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Rökkvan fer fram á Garðatorgi í Garðabæ í kvöld.
Rökkvan fer fram á Garðatorgi í Garðabæ í kvöld. Aðsent

Föstudagskvöldið 28. október fer fram ný hátíð, Rökkvan, á Garðatorgi í Garðabæ. Ungir listamenn í bænum fengu tækifæri til að skipuleggja hátíðina í samvinnu við menningarfulltrúa bæjarins og einkennist hátíðin því af þátttöku og hugmyndum ungmenna.

Ungir tónlistarmenn koma fram, ungir hönnuðir og myndlistarmenn sýna og selja afurðir sínar. Þá mun haustsýning myndlistarfélagsins Grósku verða opnuð þetta kvöld sem og ný sýning á grafískum verkum Dieters Roth í sýningarrýminu Pallurinn í Hönnunarsafni Íslands. 

„Rúsínan í pylsuendanum þetta kvöld eru Stuðmenn sem stíga á svið klukkan 21,“ segir í tilkynningu um hátíðina.

„Rökkvan er ætluð allri fjölskyldunni að njóta saman en göngugötustemning verður í glerhýsinu á Garðatorgi 1-4. Opnun á sýningu í Hönnunarsafni hefst kl. 18 en kl. 18:30 opnar list-og hönnunarmarkaður og myndlistarsýning Grósku í Gróskusal. Tónlistardagskrá á sviði hefst kl. 19 með Stórsveit Tónlistarskóla Garðabæjar en í kjölfarið koma fram Spagló og Eik, Sigga Ósk og Rökkvubandið sem samanstendur af listrænum stjórnendum hátíðarinnar. Rökkvunni lýkur svo með Stuðmönnum sem leika frá klukkan 21. Aðgangur ókeypis og öll velkomin meðan húsrúm leyfir.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×