Íslenski boltinn

Tveir varnar­menn KR meiddust á æfingu á Starhaga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Axel Óskar Andrésson er fjarri góðu gamni hjá KR gegn Vestra.
Axel Óskar Andrésson er fjarri góðu gamni hjá KR gegn Vestra. vísir/diego

KR er án varnarmannanna Axels Óskars Andréssonar og Birgis Steins Styrmissonar í leiknum mikilvæga gegn Vestra.

Fyrir leikinn gegn Vestra, sem hófst klukkan 14:00, var Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR, spurður út í fjarveru Axels.

„Hann og Biggi meiddust báðir á æfingu á, langar mig að segja, föstudag. Við þurftum að fara út á Starhaga og æfa þar og misstum þá báða í nárameiðsli. Það er nú í raun og vera ástæðan fyrir því að við gerum þessar breytingar,“ sagði Óskar.

Loka þurfti gervigrasi KR fyrir mánuði vegna slysahættu og því hafa KR-ingar æft á aðalvelli félagsins að undanförnu. Karlaliðið hefur hins vegar brugðið sér út á Ægissíðu fyrir leikinn gegn Vestra eins og Óskar sagði.

Aðeins eitt og hálft ár er síðan gervigrasið var lagt. Það hefur verið til vandræða síðan og um miðjan ágúst var skellt í lás.

„Það er ekki hægt að bjóða neinum upp á þetta og þetta er slysahætta. Við eða Reykjavíkurborg erum ábyrgðaraðilar ef eitthvað kemur hérna fyrir og það hafa orðið hérna slys. Það var tekin sú ákvörðun að loka grasinu alveg,“ segir Þórhildur Garðarsdóttir, formaður KR, í viðtali í Sportpakkanum á Stöð 2 eftir að gervigrasvellinum var lokað.

Fylgjast má með leik KR og Vestra í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 5 og í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×