Menning

Svört sveifla í hádeginu

"Það verður svört sveifla núna í hádeginu," segir Antonia Hevesi, organisti í Hafnarfjarðarkirkju, sem stendur fyrir fernum tónleikum á Björtum dögum í Hafnarfirði. Fyrstu tónleikarnir verða í hádeginu í dag, og þar verður Davíð Ólafsson bassasöngvari með henni. Davíð syngur negrasálma og aðra tónlist þeldökkra Bandaríkjamanna af mikilli list."Hann er svo fínn í þessu, þessi tónlist hentar honum mjög vel," segir Antonia.Í hádeginu á miðvikudaginn kveður síðan við allt annan tón þegar Auður Gunnarsdóttir syngur með Antoniu. "Við ætlum að pæla aðeins í því hvað ástin getur gert við mann og hvernig ástin leggst á konur. Þetta verður söngleikja- og óperettumúsík þar sem við drögum upp mjög fjölbreytta mynd af því hvernig ástin fer með konur." Á mánudag og þriðjudag ætlar Antonia síðan að vera með tvenna tónleika að kvöldi til í Hafnarfjarðarkirkju, þar sem hún starfar sem organisti. Á mánudagskvöldið syngur Margrét Eir með henni, en síðan á þriðjudagskvöldið hefur hún fengið Óskar Guðjónsson saxofónleikara til liðs við sig. "Við Margrét Eir ætlum að vera svolítið á ljúfum nótum, byrjum með nokkur þekkt sálmalög en tökum svo inn á milli íslensk lög eftir Sigvalda Kaldalóns og Sigfús Halldórsson. Svo á eftir skiptum við yfir í smá söngleikjamúsík. Það verður svo mikið fjör út um allan bæ að við ætlum að leyfa fólki að koma inn í kirkjuna til að slappa af og njóta þess." Daginn eftir ræður kirkjutónlistin síðan alveg ríkjum, þegar þau Antonía og Óskar spila saman á orgel og saxófón. "Okkur finnst orgel og saxófónn passa svo vel saman, en við ætlum að spinna út frá þekktum sálmum og nokkrum íslenskum lögum. Við ætlum ekkert að snúa út úr þessum sálmum, heldur sýna þá í nýju ljósi og sýna fólki hvað býr í sálmunum." Fyrstu tónleikarnir verða samt í hádeginu í dag, sem fyrr segir, þar sem Davíð Ólafsson syngur með Antoníu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×