Menning

Spennandi ferðir fyrir alla

Ferðaskrifstofan Stúdentaferðir er sennilega fremst í flokki þeirra ferðaskrifstofa sem bjóða upp á óvenjulegar ævintýraferðir á mjög viðráðanlegu verði. Stúdentaferðir urðu til fyrir þremur árum við samruna Ferðaskrifstofu stúdenta og fyrirtækisins Vistaskipti og nám. Viðskiptavinirnir eru, eins og nafnið gefur til kynna, að miklu leyti námsmenn og ungt fólk sem tekur sér hlé frá námi til að skoða heiminn. "Vinsælustu ferðirnar þessa dagana eru starfsþjálfunarferðir," segir Hulda Stefánsdóttir, sölu- og markaðsstjóri Stúdentaferða. "Þá fer fólk fyrst í málanám og undirbúning og svo að vinna á hótelum og veitingahúsum. Svo er líka vinsælt að ferðast um Suður- og Mið-Ameríku og fara í málaskóla og læra spænsku á ólíkum stöðum í ferðinni. Áhuginn á sjálfboðastörfum og ævintýraferðum er alltaf að aukast. Sjálfboðastörfin eru í Kosta Ríka, Gvatemala, Perú og Suður-Afríku og eru þau til dæmis hjá Rauða krossinum og oft við að aðstoða börn sem búa á götunni. Þá er farið frá Íslandi í málanám og undirbúning og á meðan á því stendur er fundið verkefni fyrir sjálfboðaliðana. Lágmarksdvalartími er 12 vikur en flestir finna sig svo vel í þessum ferðum að þeir vilja framlengja dvölina. Við höfum einnig sent fólk til Suður-Afríku í þriggja til fjögurra mánaða vinnu sem lýkur á gönguferð um villislóðir. Við hvetjum fólk alltaf til að gera sem mest úr ferðinni á þessar fjarlægu slóðir." Hulda hefur sjálf ferðast og dvalið erlendis svo hún þekkir það af eigin raun. "Ég fór sjálf sem au-pair en á eftir að fara í ævintýraferð. Ég er ekki búin að ákveða hvort ég myndi frekar vilja fara í ævintýraferð til Asíu eða um Mið-Ameríku, hvort tveggja heillar mig mjög." Hulda vill að lokum taka fram að ævintýraferðirnar eru fyrir alla, ekki bara ungt fólk og námsmenn. "Þó við séum Stúdentaferðir þá bjóðum við upp á spennandi ferðir fyrir alla, ekki bara stúdenta." Nánari upplýsingar um það sem er í boði hjá Stúdentaferðum má finna á heimasíðunni www.exit.is.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×